Fjölskyldur í gæðaþróun

Á dögunum hitti ég yndislega móður sem átti tvö eftirminnileg börn hjá okkur í leikskólanum Hjalla – en það er nú þannig með okkur kennara að börnin okkar hverfa aldrei úr hjörtum okkar. Það góða líffæri getur stækkað endalaust þegar börn eiga í hlut. Eftir mikla fagnaðarfundi og fregnir af “gömlu börnunum” okkar, þakkaði hún mér fyrir pistlaskrifin og kvað bráðnauðsynlegt að skamma foreldra eins og þau hjónin reglubundið. Skamma, sagði þessi einstaka og frábæra móðir eins og ekkert væri – og mér leið eins og hún væri að veita mér verðuga ráðningu eða “skammir” fyrir að skamma aðra.

En – foreldrar í dag eru dásamlegir. Hreint frábæri og kærleiksríkir, glaðir og hvetjandi, úrræðasnjallir og úthaldsgóðir, Svo er þeim óendanlega umhugað um að gera allt það allra besta fyrir börnin sín og eru reiðubúnir að leggja hvað sem er á sig til að styðja þau til alls hins besta. Allir þessir einstöku foreldrar eru að fást við hið margbrotna uppeldishlutverk í flóknari aðstæðum heldur en þekkist er á sögulegum tíma. Hvorki meira né minna.

Ég fór heim og hugsaði minn gang og leitaði í fórum mínum að pistlinum þar sem ég segi foreldrum hversu frábærir þeir séu í allri sinni viðleitni að gera allt sitt besta fyrir börnin sín. En – sá pistil fannst sem sagt ekki þar sem hann reyndist óskrifaður af minni hálfu. Hins vegar fann ég alla hina þar sem foreldrar og fjölskyldur eru hvött til dáða með ráðum úr reynslusmiðju okkar uppeldisfólks, rétt eins og við gerum í skólum landsins þegar við ástundum stöðuga gæðaþróun, þegar við tökum okkur til og ákveðum að gera gott betra. Ekki af því að við séum ómöguleg, heldur af því að við viðurkennum að ekkert sé fullkomið. Í gæðaþróuninni býr einlæg löngun og svo viðleitni til að læra af mistökum. Sjálfsskoðun þar sem við lítum inn á við, samvinna þar sem fólk ræðir saman og deilir reynslu sinni, ákvarðanir hvernig við getum betur brugðist við börnum og skipulagt allar hinar flóknu aðstæður til að öllum gangi betur og betur og betur í dag en í gær.

Öll uppeldisskrif og umræður eru sem sagt liður í gæðaþróun og allir þeir foreldrar og þær fjölskyldur sem lesa og ræða, eru þátttakendur í gæðaþróun fjölskyldu og heimilis.

— Margrét Pála Ólafsdóttir