Hjallastefnan nemur land í Glasgow

Hjallastefnan nemur land í Glasgow.

Nýtt félag, Hjalli-model, hefur fest kaup á leikskóla í Glasgow sem verður starfræktur í anda Hjallastefnunnar.  Verkefnið hefur það meðal annars að markmiði að svara aukinni eftirspurn erlendis frá eftir menntun barna sem byggir á hugmyndafræði Hjallastefnunnar.

Stofnandi Hjallastefnunnar Margrét Pála Ólafsdóttir segir það hafa verið draum í yfir 20 ár að starfrækja skóla erlendis sem byggir á hugmyndafræði Hjallastefnunnar. Á síðasta skólaári tók Hjallastefnan á móti meira en 270 gestum erlendis frá sem sýnir að aukin eftirspurn er eftir nýjum hugmyndum í skólastarfi um allan heim. Hjallastefnan hefur verið í þróun í yfir 30 ár og grundvallast á jafnrétti, sköpun og lýðræði en þessi gildi hafa fengið aukið vægi í uppeldis- og menntamálum á þeim tíma.

„Á síðustu tólf mánuðum höfum við kjarnað hugmyndir okkar og niðurstaðan var að áhrifaríkast væri að starfrækja leikskóla í landi sem er mátulega nálægt okkur landfræðilega og menningarlega. Við viljum læra á nýtt umhverfi og aðlaga Hjallastefnuna í áföngum – reiðubúin til að endurskapa í ljósi nýrrar reynslu. Uppeldissamtal milli landa er tækifærið okkar því að við sköpum mest og best í raunverulegu starfi með börnum, starfsfólki og foreldrum. Við erum tilbúin að taka skrefið og fundum spennandi en líka vel ögrandi tækifæri í Glasgow,“ segir Margrét Pála.

Starfsemin í Skotlandi er rekstrarlega óháð Hjallastefnunni á Íslandi.