Hjallastefnan ehf.

Hjallastefnan ehf. var stofnuð árið 1999 til að halda utan um sjálfstæðan rekstur á leik- og grunnskólastigi þar sem markmiðið var að skapa Hjallastefnunni sem skólastefnu sem bestar aðstæður til þróunar. Fyrirtækinu var einnig ætlað að valdefla konur og kvennastörf sem og að auka fjölbreytni í skólastarfi. Sem jafnréttisfélag höfum við barist fyrir því að allir skólar njóti jafnræðis varðandi opinber fjárframlög og að allir foreldrar njóti valfrelsis þegar kemur að uppeldi og menntun barna, óháð fjárhagsstöðu sinni.

Hjallastefnan ehf. er samt fyrst og fremst samband mjög sjálfstæðra leik- og grunnskóla sem hagnýta sömu meginnámskrá sem er hugmyndafræði Hjallastefnunnar samkvæmt handbókum og öðru námsefni. Stjórnendur hvers skóla bera ábyrgð á þjálfun og þróun Hjallastefnunnar ásamt samstarfsfólki sínu og stjórnendur bera einnig ábyrgð á daglegum rekstri skólans. Hver skóli skapar sitt eigið andrúmsloft og sína eigin menningu en á í náinni samvinnu við aðra Hjallastefnuskóla. Skólastjórnendur starfa einnig í náinni samvinnu sín á milli og við rekstrarskrifstofuna, Hjallamiðstöð, sem þjónar skólunum rekstrarlega og fjárhagslega. Hjallastefnuskólarnir eru nú átján talsins, leik- og grunnskólar víða um land samkvæmt þjónustusamningum við sveitarfélögin.

Starfsfólk Miðstöðvar

Margrét Pála Ólafsdóttir

Hjallamiðstöð, stjórnarformaður, mpo[@]hjalli.is

Margrét Pála er stjórnarformaður Hjallastefnunnar ehf. Hún hefur áratuga reynslu af leik- og grunnskólastjórnun, námskeiðshaldi og kennslu og er höfundur Hjallastefnunnar. Hún útskrifaðist frá Fósturskóla Íslands 1981, lauk diplóma í stjórnun frá sama skóla árið 1996, meistaragráðu í uppeldis- og kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2000 og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011.

Ingigerður Hjaltadóttir

Hjallamiðstöð, bókhald, inga[@]hjalli.is

Ingigerður Hjaltadóttir eða Inga eins og hún er kölluð vinnur í bókhaldi Hjallastefnunnar ehf. Hún hefur unnið við bókhald og skrifstofustörf frá örófi alda. Inga er úr Hafnarfirði og með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík.

Emilía Jóhannsdóttir

Hjallamiðstöð, skrifstofa

Emilía eða Emma eins og hún er kölluð hefur umsjón með skrifstofu Hjallastefnunnar þar sem hún sinnir bókhaldi og fleiri verkefnum. Þeir sem hringja til okkar á skrifstofuna eru svo heppnir að fá að heyra fallegu norðlenskuna hennar. Emma hefur aðallega unnið við skifstofustörf í gegnum tíðina. Hún er gagnfræðingur frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri.

Alma Guðmundsdóttir

Hjallamiðstöð, fjármálastjóri

Alma er fjármálastjóri Hjallastefnunnar. Hún hefur víðtæka starfsreynslu á sviði fjármálastjórnunar, meðal annars hjá Já og Capacent. Alma er með BS próf í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri.

Matthías Matthíasson

Hjallamiðstöð, upplýsingatækni, rekstur og skólamál

Matthías er sálfræðingur að mennt og er með starfsréttindi og áratuga reynslu sem grunn- og framhaldsskólakennari auk mikillar reynslu af leikskólarekstri og -kennslu. Hann sinnir rekstrar- og skólaverkefnum, með sérstaka áherslu á tækni- og upplýsingamál. Auk þess er Matthías tengiliður við birgja og innkaupahóp Hjallastefnunnar.

Þórdís Jóna Sigurðardóttir

Hjallamiðstöð, framkvæmdastjóri

Þórdís Jóna Sigurðardóttir er framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar. Hún hefur víðtæka reynslu úr íslensku atvinnulífi og hefur setið í stjórnum fyrirtækja hér á landi sem og erlendis. Þórdís hefur einnig setið í Háskólaráði Háskólans í Reykjavík og var lektor við sama skóla og kenndi stjórnun og stefnumótun. Undanfarin ár hefur Þórdís einkum unnið við stjórnendaráðgjöf og stefnumótun fyrir fyrirtæki og stjórnendur.

Skólastjórnendur Hjallastefnunnar

Dóra Margrét Bjarnadóttir

Litlu-Ásar og Hnoðraholt

Dóra Margrét kom sem nemi á Hjalla í Hafnarfirði árið 1990. Hún útskrifaðist úr fósturskólanum 1991 og hóf þá þegar störf á Hjalla. Árið 2003 kom Dóra að uppbyggingu á Vífilsstöðum og hélt utan um mótun starfs með fimm ára börnum. Hún varð skólastjóri Öskju í Reykjavík 2012 en sneri svo aftur í Garðabæinn 2017 og tók þá við Hnoðraholti. Dóra ólst upp í Hafnarfirði en hefur verið búsett í Garðabæ síðan 1977.

Ásrún Vilbergsdóttir

Leikskólinn Ásar

Ásrún, eða Ása eins og hún er kölluð í daglegu tali, útskrifaðist sem leikskólakennari árið 1992. Ása starfaði um árabil í leikskólanum Hjalla í Hafnarfirði, hún er meðal reyndustu kennara Hjallastefnunnar. Ása hóf störf á Ásum haustið 2002, hún var um tíma meðstjórnandi í leikskólanum Öskju og síðar skólastýra í leikskólanum Hraunborg við Bifröst. Árið 2017 kom Ása svo til baka og tók við stjórnartaumunum á Ásum. Ása hefur setið öll þau námskeið sem Hjallastefnan ehf. hefur boðið starfsfólki sínu upp á í gegnum tíðina auk þess að sitja námskeið í stjórnun og forystu til framþróunar.

María Ösp Ómarsdóttir

Leikskólinn Barnaból

María Ösp lærði list- og verkgreinakennslu fyrir grunn- og framhaldsskóla í Háskólanum í Suðaustur Noregi þar sem hún lagði áherslu á stafræna miðla. Hún starfaði í fimm ár við grunnskólakennslu ásamt því að sjá um frístundastarf við Höfðaskóla á Skagaströnd. María Ösp sér um daglegan rekstur leikskólans Barnabóls og hefur gert það síðastliðin þrjú ár, auk þess vinnur hún að ýmsum miðlægum verkefnum og heldur utan um leikskólaliðabrú Hjallastefnunnar.

Steinunn M. Guðmundsdóttir

Barnaskólinn í Garðabæ

Steinunn er uppalin á Akureyri en flutti eftir stúdentspróf til Helskinki í Finnlandi þar sem hún nam arkitektúr við Tækniháskólann í Helsinki. Steinunn starfaði sem arkitekt í Finnlandi í 15 ár en fluttist til Íslands 2005 og hóf þá störf hjá ASK arkitektum. Meðfram störfum sínum lét Steinunn gamlan draum rætast og lauk námi við Listaháskóla Íslands og bætti þar með við sig kennsluréttindum. Árið 2017 tók Steinunn svo við hlutverki skólastýru Hjallastefnunnar í Tálknafjarðarskóla og haustið 2018 tók hún við skólastýruhlutverkinu við Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum. Auk stjórnunarstarfa mun Steinunn hafa umsjón með frístundastarfi í skólanum.

Helga Björk Ólafsdóttir

Leikskólinn Sóli

Helga Björk útskrifaðist sem leikskólakennari 1998 og sem grunnskólakennari 2003. Eftir útskrift hóf hún störf við leikskólann Rauðagerði, síðar sama ár flutti Helga Björk sig yfir til Hamarsskóla þar sem hún kenndi þangað til að hún tók til starfa í leikskólanum Sóla. Helga Björk nýtur þess að eiga í mannlegum samskiptum og er þekkt fyrir létt lundarfar. Helga Björk er þriggja barna móðir.

Bára Tómasdóttir

Leikskólinn Hraunborg

Bára Tómasdóttir er fædd 16. mars 1970. Hún útskrifaðist úr Fósturskóla Íslands 1994. Hún vann í þrjú ár í Osló í Noregi sem deildar- og aðstoðarleikskólastjóri. Í Osló starfaði hún einnig sem faglegur leiðbeinandi fyrir dagmæður. Hún hefur unnið hjá Hjallastefnunni í þrettán ár, þar af sex ár sem leikskólastjóri á Hraunborg á Bifröst. Bára á fjögur börn og tvö barnabörn og býr ásamt fjölskyldu sinni í Hvalfjarðarsveit.

Alfa Björk Kristinsdóttir

Leikskólinn Hólmasól

Alfa útskrifaðist sem leikskólakennari árið 1995 en hefur starfað í leikskólum frá árinu 1991. Hún byrjaði ung að vinna í sumarbúðum fyrir fatlaða og svo á skammtímavistun og sambýlum á veturna meðfram námi. Helstu áhugamál Ölfu eru fjölskyldan, ýmis konar handavinna og prjónaskapur og líður henni best með fallega hluti í kring um sig.

Guðríður Guðmundsdóttir

Leikskólinn Eyrarskjól

Guðríður er ávallt kölluð Guja í daglegu tali. Guja er leikskólastjóri Eyrarskjóls á Ísafirði. Hún er leikskólakennari frá Háskólanum á Akureyri þaðan sem hún útskrifaðist 2006. Guja nýtur þess að starfa með fólki en hún hefur reynslu af því að starfa með öldruðum og hefur kennt við grunnskóla, meginþorra starfsævinnar hefur hún þó starfað í leikskólanum sem á hug hennar og hjarta enda telur hún það mikla gæfu að fá að starfa með börnum og fjölskyldum þeirra. Guja er borin og barnfædd í Önundarfirði.

Jensína Edda

Leikskólinn Laufásborg

Jensína Edda er aldrei kölluð annað en Jensa. Hún er leikskólakennari að mennt og hefur unnið eftir Hjallastefnunni síðan 1996. Jensa hefur í tvígang innleitt Hjallastefnuna í leikskóla en hún vann á Barnaheimilinu Ósi 1996-1998 áður en hún tók við Laufásborg. Jensa hefur verið með námskeið og fyrirlestra fyrir ýmsa leikskóla innan og utan Hjallastefnunnar. Jensa hefur tekið að sér að vera ráðstefnustjóri á ráðstefnum Hjallastefnunnar. Velferð barna og skólamál eru sérleg áhugamál Jensu, sem og mannrækt, sagnfræði og bókalestur.

Guðrún Silja Steinarsdóttir

Leikskólinn Askja

Guðrún Silja Steinarsdóttir, eða Silja eins og hún er kölluð, er fædd og uppalin á Akureyri. Hún hefur þó búið í Reykjavík meira eða minna frá árinu 1999. Silja útskrifaðist sem leikskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands árið 2007 og er með diplómu í stjórnun menntastofnana frá Háskólanum á Akureyri. Silja starfaði í leikskólanum Klömbrum í Reykjavík og í eitt ár við Kársnesskóla í Kópavogi áður en hún hóf störf hjá Hjallastefnunni sumarið 2010.  Fyrst um sinn starfaði Silja í leikskólanum Öskju en flutti sig þaðan yfir í Barnaskólann í Reykjavík og starfaði þar allt þar til hún og fjölskylda hennar fluttust til Svíþjóðar. Vorið 2017 kom fjölskyldan heim að nýju og tók Silja þá við hlutverki skólastýru í leikskólanum Öskju.

Matthildur Hermannsdóttir

Leikskólinn Laufásborg

Matthildur tók þátt í að innleiða Hjallastefnuna á Laufásborg árið 2000 þá sem aðstoðarleikskólstjóri. Hún hefur kennt á námskeiðum hjá Hjallastefnunni og séð um kennslu og búið til námsefni um jafnréttisuppeldi á símenntunarnámskeiðum hjá LR. Matthildur sat í jafnréttisnefnd fyrir Leikskóla Reykjavíkur í fimm ár. Áður vann hún á sambýli fyrir fatlaða og í hinum ýmsu stöðum í leikskólum, hún hefur meðal annars sinnt sérkennslu og starfað sem stjórnandi. Matthildur er leikskólakennari að mennt og er mikil áhugamanneskja um uppeldis- og jafnréttismál, eins nýtur hún þess að lesa góðar bækur, hlusta á tónlist, dansa og njóta lífsins úti í náttúrunni.

Ragnhildur Ásgeirsdóttir

Barnaskólinn í Reykjavík

Ragnhildur fæddist í Stokkhólmi árið 1966. Hún lauk B.Ed. gráðu frá KHÍ 1991, lauk námi í djáknafræðum frá HÍ 1997 og uppeldisfræði frá KHÍ 2004. Ragnhildur lauk síðan stjórnunarnámi, M.Ed. námi frá HÍ, árið 2012. Ragnhildur hefur áratuga reynslu af starfi með börnum. Hún starfaði sem kennari í Reykjavík og síðar tvö ár í Svíþjóð. Hún var framkvæmdastjóri Kristilegrar skólahreyfingar frá 1999-2003, var framkvæmdastjóri KFUM og K í Reykjavík 2004 og framkvæmdastjóri Landssambands KFUM og K árið 2005. Ragnhildur hefur verið virk í kirkjustarfi en hún starfaði sem djákni við Fella- og Hólakirkju til ársins 2013 en þar bar hún m.a. ábyrgð á öflugu listastarfi með börnum. Þá starfaði Ragnhildur sem framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags til ársins 2017 en hún tók þá við skólastjórastarfi Barnaskólans. Ragnhildur er gift og á þrjú börn.

Karen Viðarsdóttir

Leikskólinn Völlur

Karen er margreyndur Hjallastefnukennari. Hún er fædd og uppalin í Hafnarfirði og útskrifaðist sem leikskólakennari 2006. Karen hefur unnið á Hjalla í Hafnarfirði, Laufásborg í Reykjavík og Ásum í Garðabæ og var um tíma leikskólastjóri á Krakkaborg í Flóahreppi. Árið 2014 tók Karen við leikskólastjórastöðunni á Velli í Reykjanesbæ.

Karen Valdimarsdóttir

Leikskólinn Gimli

Karen útskrifaðist frá Fósturskóla Íslands 1982 og hefur starfað sem leikskólakennari síðastliðin 23 ár. Hún hefur því víðtæka reynslu í leikskólastjórn og kennslu. Eftir að hafa starfað á ýmsum sviðum innan leikskólageirans hóf hún starf á Gimli árið 1996. Karen fór í 30 eininga framhaldsnám í starfstengdri siðfræði við Háskóla Íslands 2001-2002. Veturinn 2003-2004 starfaði Karen sem verkefnastjóri í leikskólanum Tjarnarseli í Reykjanesbæ. Karen kom aftur til starfa á Gimli 1. júní 2004 og tók við stöðu leikskólastjóra. Samhliða starfi hennar á Gimli hefur Karen verið í verkefnavinnu hjá öðrum leikskólum vegna jákvæðra samskipta í leikskólaumhverfinu, en það viðfangsefni er hennar hjartans mál.

Hulda Björk Stefánsdóttir

Leikskólinn Sólborg

Hulda Björk tók við stöðu leikskólastjóra í Sólborg í júlí 2012. Hulda er útskrifaður leikskólakennari frá Háskólanum á Akureyri, hún starfaði áður sem leikskólakennari í Hjallastefnuleikskólanum Akri.

Sigrún Gyða Matthíasdóttir

Leikskólinn Akur

Sigrún Gyða er skólastjórinn á Akri og sinnir daglegum rekstri skólans. Hún á tvo drengi ásamt Birki unnusta sínum. Hún er alin upp á Laugum í Reykjadal og lauk hún stúdentsprófi frá Framhaldsskólanum á Laugum 2007. Hún hefur búið og unnið í Reykjanesbæ síðan 2007 og hefur mikla reynslu af starfi innan Hjallastefnunnar. Hún hefur til að mynda unnið á Ásum, Hjalla, Velli og nú Akri. Hún hefur mikla reynslu af leikskólastarfi bæði sem hópstjóri og stjórnandi. Sigrún er þroskaþjálfi að mennt. Í frítíma stundar Sigrún box og kanínubúskap.

Íris Helga Baldursdóttir

Leikskólinn Hjalli

Íris Helga Baldursdóttir er fædd og uppalin á Norðurlandinu. Hún flutti í Hafnarfjörð rúmlega tvítug og hefur búið þar síðan. Þar á hún þrjár fyrrum Hjallastúlkur, eiginmann og hund. Íris Helga útskrifaðist sem grunnskólakennari úr Kennaraháskóla Íslands vorið 2008. Hún hefur bætt við sig diplómugráðu í stjórnun menntastofnana í Háskóla Íslands og er langt komin í ritgerðarsmíðum í meistaranámi. Íris Helga er því með tvöfalt leyfisbréf, fyrir leik- og grunnskóla.

Íris byrjaði að kenna hjá Hjallastefnunni haustið 2011 í Barnaskólanum í Garðabæ. Rúmu ári síðar varð hún skólastjóri í Barnaskólanum í Reykjavík þar sem hún vann í þrjú ár. Þá stýrði hún miðstigi í Barnaskólanum í Hafnarfirði í eitt ár, í október 2018 tók Íris svo við skólastjórn í leikskólanum Hjalla.

Gróa Margrét Finnsdóttir

Hnoðraholt

Gróa byrjaði sem móðir á Hjalla og var kölluð til starfa þangað árið 1998. Gróa útskrifaðist árið 2006 úr leikskólakennaranáminu. Hún hefur starfað sem skólastjóri á Ásum og Hjalla áður en hún tók við sem skólastjóri á Hnoðraholti og stýrir því ásamt Dóru. Hún er gift, þriggja barna móðir og á fjögur barnabörn.

Hildur Sæbjörg Jónsdóttir

Barnaskólinn í Hafnarfirði

Hildur Sæbjörg hefur verið skólastýra Barnaskólans í Hafnarfirði frá árinu 2010. Hóf hún störf í Barnaskólanum árið 2006 sem umsjónarkennari og starfaði sem meðstjórnandi frá árinu 2008. Hún er með BA gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum ásamt kennsluréttindum á grunn- og framhaldsskólastigi frá Háskóla Íslands.

Stjórn Hjallastefnunnar

Margrét Pála Ólafsdóttir

Stjórnarformaður

Margrét Pála er stjórnarformaður Hjallastefnunnar ehf. Hún hefur áratuga reynslu af leik- og grunnskólastjórnun, námskeiðshaldi og kennslu og er höfundur Hjallastefnunnar. Hún útskrifaðist frá Fósturskóla Íslands 1981, lauk diplóma í stjórnun frá sama skóla árið 1996, meistaragráðu í uppeldis- og kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2000 og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011.

Margrét Theodórsdóttir

Stjórnarmeðlimur

Margrét er skólastjóri og eigandi Tjarnarskóla sem hún setti á stofn árið 1985 í samstarfi við Maríu Solveigu Héðinsdóttur. Hún var stofnaðili og stjórnarmaður í Samtökum sjálfstæðra skóla þar sem hún sat í fyrstu stjórn samtakanna. Margrét hefur áratuga reynslu af skólastarfi og þá sérstaklega af starfi sjálfstæðra skóla.

Ólafur Stefánsson

Stjórnarmeðlimur

Ólafur er kunnur handknattleiksmaður og þjálfari en hefur einnig tekið þátt í áhugaverðum skólaverkefnum. Hann undirbjó stofnun sjálfstæðs skóla í Reykjavík ásamt Eddu Huld Sigurðardóttur skólastjóra Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík og Þorvaldi Þorsteinssyni rithöfundi auk þess sem hann átti samráð við Margréti Pálu og Hjallastefnuna við hönnun apps sem hentar nemendum einstaklega vel til skráningar á athugunum og hugleiðingum hvers konar.

Kristján Vigfússon

Stjórnarmeðlimur

Kristján Vigfússon hefur tekið við stöðu forstöðumanns MBA námsins í Háskólanum í Reykjavík af Vlad Vaiman. Kristján hefur verið fastráðinn kennari við viðskiptadeild skólans frá árinu 2008. Áður en Kristján gekk til liðs við háskólann var hann með eigið ráðgjafafyrirtæki á sviði stefnumótunar og Evrópumála og hafði þar á undan verið aðstoðarforstjóri Siglingastofnunar Íslands og sendifulltrúi í sendiráði Íslands í Brussel.