Bóas Hallgrímsson ráðinn framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar

Bóas Hallgrímsson hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Hjallastefnunni frá og með 12. ágúst og leiðir starf þeirra 18 skóla sem Hjallastefnan rekur inn í nýtt skólaár. Bóas tekur við stöðunni af Katrínu Dóru Þorsteinsdóttur sem gegnt hefur stöðu tímabundins framkvæmdastjóra á þessu ári og er henni þakkað fyrir góð og mikilvæg störf.

„Fyrir mér er þetta sérstaklega stór dagur. Ég hef nánast alla mína starfsævi komið að Hjallastefnunni með einum eða öðrum hætti: sinnt skilavöktum síðdegis á leikskólum samhliða námi, verið sumarstarfsmaður, kennari og ráðgjafi fyrir Hjallastefnuna. Ég hef starfað við á Reykjakoti í Mosfellsbæ þegar sá skóli var rekinn undir hatti Hjallastefnunnar. Starfað á Hjalla í Hafnarfirði, kennt við Barnaskólann í Garðabæ þar sem ég var til margra ára og starfað á Akri í Reykjanesbæ. Hjallastefnan er mér einstaklega kær og hefur verið það lungann úr lífi mínu og er ég í raun komin aftur heim.“

Bóas er með meistaragráðu í viðskiptafræði, með áherslu á frumkvöðlastarf, frá Háskólanum í Uppsölum í Svíþjóð, meistaragráðu í fjölmiðla- og boðskiptafræðum frá sömu stofnun og grunnnám í heimspeki frá Háskóla Íslands.

“Hjallastefnan er einstaklega stolt af því að fá Bóas til liðs við Hjallastefnufjölskylduna en hann hefur víðtæka menntun og reynslu sem og sýn inn í hugsjónir Hjallastefnunnar. Stjórn býður hann innilega velkomin til starfa”, segir Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur, stofnandi og eigandi Hjallastefnunnar.