Hanna Þórsteinsdóttir verður framkvæmdastjóri á Sólborg.

Gengið hefur verið frá ráðningu Hönnu Þórsteinsdóttur í starf framkvæmdastjóra Sólborgar. Hulda Björk Stefánsdóttir sem verið hefur leikskólastjóri á Sólborg mun færa sig um set yfir á Völl í Reykjanesbæ.

Hanna hefur mikla reynslu af störfum innan Hjallastefnunnar en hún hóf störf á Laufásborg árið 2006 og hefur frá þeim tíma starfað bæði í leik- og grunnskólum Hjallastefnunnar.

Hanna er með BA gráðu í Nútímafræðum með uppeldis- og menntunaráherslu frá Háskólanum á Akureyri og hefur hafið nám til kennararéttinda við sama skóla. Hanna hefur á þessu skólaári verið hópstjóri 5 ára stúlkna á Laufásborg.

„Mér finnst stórkostlegt að fá tækifæri til þess að kynnast börnum, foreldrum og starfsfólki Sólborgar og hlakka til samstarfsins. Einnig finnst mér spennandi að halda áfram að þróa starf skólans í anda Hjallastefnunnar”, segir Hanna sem mun hefja störf þann 6. maí næst komandi.