Í dag hófst skólastarf í leik- og grunnskólum Hjallastefnunnar

Í dag hófst skólastarf í leik- og grunnskólum Hjallastefnunnar. Samfélag Hjallastefnunnar hefur tekið höndum saman í því verkefni sem blasir við okkur á komandi vikum, en við búum svo vel að eiga framúrskarandi skólastjóra, starfsfólk sem og foreldra sem öll sem eitt ganga í takt með okkur og við erum óendanlega þakklát fyrir.

Hugmyndafræði og nálgun Hjallastefnunnar hefur hjálpað til við útfærslu á skólastarfi á þessum margbrotnu tímum en þá ber hæst að nefnda lykilorðin okkar Kjörnun, Sundurgreining og fækkun fingrafara sem við vinnum með í reglubundnu starfi í Hjallastefnuskólum.

Í Handbók Hjallastefnunnar segir að góður skóli er ekki sá sem hefur einu sinni fóstrað frábæra hugmynd eða framkvæmt eitthvað eitt stórkostlegt. Þvert á móti er góður skóli sá sem sinnir hundrað þúsund smáatriðum af fullkominni trúmennsku á hverjum einasta degi. Gæðin felast þannig í smáatriðunum og hvernig hvert eitt og einasta þeirra er úthugsað sem leið að markmiðum skólans. Þá þarf hver starfsþáttur að vera í samhljómi við þann næsta og í reynd að styðja allt starf skólans.

Þetta leiðarljós við trúmennsku um hvert og eitt smáatriði á sjaldan eða aldrei betur við. Þannig var ný áskorun sem okkur var ætlað að leysa á fáum dögum fundið farsæla lausn innan okkar hugmyndafræði. Þannig höfum við náð að kjarna og sundurgreina skólana okkar enn frekar niður til að ná þeim nýju markmiðum sem samkomubannið felur í sér.

Samvinna gegnir lykilhlutverki í því verkefni sem framundan er því þannig munum við stuðla að öryggi og sem bestri líðan barnanna.