Miðstig í Barnaskólanum í Garðabæ hefst í haust.

Barnaskólinn í Garðabæ tekur stórt skref í skólaþróun næsta haust því þá verður 10 ára kjarni í Barnaskólanum fyrsti árgangur á nýju miðstigi skólans.

Hjallastefnan sótti um miðstig með dyggum stuðningi foreldra en bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti 4. apríl síðastliðin tillögu skólanefndar um að verða við erindi Hjallastefnunnar um leyfi fyrir kennslu á miðstigi.

Byggt verður ofan á það góða starf sem fyrir er og börn og foreldrar þekkja en þó með nokkrum áherslubreytingum. Grunneiningin verður miðstigskjarni þar sem stúlkur og drengir starfa saman en skiptingar í undirhópa verði sveigjanlegar og taka í meira mæli mið af áhugasviði og námsstöðu hvers barns. Námið verður lotuskipt. Nám í listgreinum verður samofið bóknámi í listasmiðjum og stórum hópverkefnum. Nemendur munu hafa Chromebooks fartölvur til umráða í skólanum og þær notaðar markvisst til upplýsingaöflunar, þjálfunar og sköpunar. Við höldum áfram með þróunarverkefni í Singapore-stærðfræði sem lofar góðu.

Allt okkar starf grundvallast sem fyrr á kynjanámskrá Hjallastefnunnar með jafnrétti, lýðræði og sköpun að leiðarljósi.