Skólagjöld í Barnaskólanum í Hafnarfirði heyra sögunni til

Það er einstök gleði að deila með ykkur nýrri ákvörðun bæjaryfirvalda í Hafnarfirði um hækkun á framlagi með hverju barni sem sækir Barnaskólann í Hafnarfirði frá og með næsta skólaári og þar með heyra skólagjöld sögunni til.

Langþráður draumur okkar í Hjallastefnunni og foreldra hefur ræst; sambærilegt fjármagn mun fylgja öllum börnum bæjarins, óháð því hvaða skóla þau sækja.

“Með þessu hafa hafnfirsk bæjaryfirvöld riðið á vaðið og tryggt öllum skólum sveitarfélagsins réttlátt framlag og við fögnum hjartanlega þessari jafnréttisbyltingu fyrir börn, foreldra, kennara og skóla”, sagði Magga Pála, stofnandi Hjallastefnunnar.

Hún bætir því við að sérlega góð samvinna bæjaryfirvalda, skólastjórnenda Barnaskólans og svo foreldra hafi skipt sköpum í þessari merkilegu niðurstöðu.

Þetta stórkostlega framfaraskref var staðfest á fundi Fræðsluráðs Hafnarfjarðar þar sem samþykkt var að rekstrarframlag með barni muni framvegis verða 100% til sjálfstætt starfandi skóla í Hafnarfirði í stað þeirra 75% sem hafa að hluta verið brúaðar með skólagjöldum foreldra.

Hjallastefnan tekur undir það sem fram kemur í fundargerð ráðsins að mikilvægt sé að gæta jafnræðis milli allra barna í grunnskólum óháð því hvert rekstrarframlag skólanna er. Fjölbreytni og valfrelsi skiptir höfuðmáli og Barnaskóli Hjallastefnunnar í Hafnarfirði er því orðið raunverulegt val þeirra sem kjósa að senda börn sín í Hjallastefnuskóla í bæjarfélaginu – óháð efnahag foreldra.

“Við fögnum þessari mögnuðu staðreynd að bæjarfélagið og þeir sem fyrir það starfa, hafi haft kjark og þor til þess að taka þetta stóra skref ”, sagði Bóas Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar.

Sjá fundargerð Fræðsluráðs Hafnarfjarðar frá 11. maí 2022. 9.