Þjálfaradagur í aðferðum Hjallastefnunnar

Þann 30. ágúst síðast liðinn tóku um 30 starfsmenn leikskóla Hjallastefnunnar þátt í þjálfaranámskeiði. Markmið námskeiðsins var að undirbúa þátttakendur fyrir hlutverk sitt sem þjálfara í aðferðum Hjallastefnunnar.

 

Þjálfun í aðferðum Hjallastefnunnar er 9 vikna námskeið þar sem hver vika hefur sitt þema. Námsefnið samanstendur af lesefni úr Handbók Leikskóla sem skrifuð er af höfundi Hjallastefnunnar Margréti Pálu Ólafsdóttur, myndböndum og sjálfsprófum. Allt efnið er aðgengilegt á stafrænu formi í gegnum Google Classroom en einnig munu skólar nýta efnið til hópavinnu.

 

„Um er að ræða mikið framfara- og gæðaskref fyrir leikskóla Hjallastefnunnar. Allir starfsmenn Hjallastefnunnar munu í vetur fara í gegnum námskeiðið sem býður upp á fjölmörg tækifæri til samtals um bestu aðferðir við kennslu samkvæmt aðferðafræði Hjallastefnunnar“, segir Þórdís Jóna Sigurðardóttir framkvæmdastýra Hjallastefnunnar. „Okkur fannst þetta skref líka eðlilegt framhald af því umbótastarfi sem hefur verið í gangi síðustu misseri í að bæta starfsumhvefi kennara hjá Hjallastefnunni. Við höfum nú þegar stigið mikilvæg skref í að stytta vinnutíma kennara okkar og það hefur skilað sér til dæmis í auknum gæðum í kennslu. Það er ekkert launungamál að við viljum vera eftirsóttasti vinnustaður kennara á Íslandi og til þess að svo megi vera þurfum við að vera til fyrirmyndar þegar kemur að því að þjálfa okkar fólk í hugmyndafræði og aðferðum stefnunnar“.