Þóranna á leið til Kenía

Hér er Þóranna M. Sigurbergsdóttir, leikskólakennari á Sóla í Vestmannaeyjum, milli skólastjórnendanna okkar þeirra Helgu Bjarkar og Hildar Daggar. Eftir um 40 ár í leik og starfi með börnum í Vestmannaeyjum er Þóranna með síðasta vinnudaginn sinn á Hauststefnu Hjallastefnunnar núna 4. október. Það er í sjálfu sér ekki frásögufærandi nema hvað að Þóranna er á leið til Nakuru, Kenía í hjálparstarf með börnum og konum. Við dáumst að kjarki og manngæsku Þórönnu, á tímum þar sem stöðugt er talað um kulnun kvenna í starfi og að fólk á hennar góða aldri eigi að drífa sig á eftirlaun. Þóranna og eiginmaður hennar hafa 2 sinnum farið til Kenía og unnið við hjálparstarf og vita því að hverju þau ganga núna í haust þegar þau taka stóra skrefið í lengri dvöl og við mun stærri verkefni en áður hefur verið. Meðal verkefna sem Þóranna er að vinna að er endurbygging og stækkun á kvennaathvarfi, enda þörfin fyrir slíka starfsemi gríðarleg, vinna að styrkingu kvenna sem þar koma og tengjast leikskólastarfi, meðal annars mögulegri uppbyggingu á leikskóla fyrir eins árs börn. Hjallastefnufólkið á Sóla er að leggja í púkk og bíður öðrum að vera með, verið er að safna fyrir nýju gólfi í kvennaathvarfið, uppsetningu á rennandi vatni og sturtum fyrir konurnar og öll börnin sem þeim fylgja. Þeir sem vilja vera með geta lagt inn á reikning í nafni Þórönnu kt. 121155-5919 reikningur 0185-26-003667.

Þóranna hefur varið frístundum sínum síðasta árið til að læra svahílí til að geta tjáð sig við þá hópa sem ekki geta tjáð sig á ensku, börnin, gamla fólkið og fólk í fátækrahverfum.

Við Hjallastefnufólk óskum henni velfarnaðar og munum fá myndir og fréttir af starfi hennar sem við munum dreifa á samfélagsmiðlum okkar.

Er þetta frábært eða frábært….