Valfundur heima í stofu

Val og valfundur
Í skólum Hjallastefnunnar er val stór hluti af dagskránni okkar. Þar fá börn á öllum aldri tækifæri til að æfa viljann og ákveða leiki eða nám fyrir næstu starfseininguna. Valið fer fram á valfundi þar sem þau æfa þrjú grundvallaratriði, að vita vilja sinn, koma honum á framfæri á jákvæðan hátt og loks að taka mótlæti ef þau komast ekki að í þetta skiptið og þurfa að velja annan kost.
Hér kemur hugmynd að vali heima. Hjallastefnubörn kunna valfundarlagið og kunna að velja. Þau geta kennt ykkur.
Hægt er að útfæra valfundarspjöld eftir því hvað barninu finnst skemmtilegt og hvað er til heima. Við mælum með að hafa hvert svæði eða hvern valkrók eins og við köllum það, afmarkað. Það má gera með því að setja teppi eða dýnu á gólfið eða jafnvel líma strik á gólfið. Sniðugt að stilla klukku sem hringir þegar valið er búið og komið að tiltekt.
Hér koma hugmyndir að valsvæðum heima:
LEIRKRÓKUR
Búa til leir saman (sjá uppskrift sem var sett inn um daginn). Og nota eldhúsáhöld með leirnum til að gera það ennþá skemmtilegra.
FÖNDURKRÓKUR
Setja upp föndurstöð eða málningarstöð með öllu því sem við eigum og dettur í hug; blöð, litir, lím, garn, gjafabönd, cheerios pakkar, mjólkurfernur, skæri…
Leyfa þeim að skapa að vild dásamleg listaverk.
SULLUKRÓKUR
Sulla með vatn, dollur og alls konar dót
LESA
Að lesa fyrir börn er ein besta málörvun sem við getum veitt börnunum okkar. Börn í skólahópi geta hér æft sig að lesa sjálf (t.d. eru hér 100 algenustu orðin sem er gaman að æfa sig á https://www.100ord.is/ ) og yngri börnin látið lesa fyrir sig. Einnig mælum við með að finna skemmtilegar hljóðbækur inn á viðeigandi veitum eins og t.d. Storytel.
ÚTIVERA
Fara saman í létta göngu, jafnvel með viðkomu á leikvelli ef það er í boði.
LEIKSTOFA
Sniðugt er að finna til dýnur, teppi, púða og lök og byggja hús/tjald.
Gangi okkur vel!