Hvað er gert til þess að stuðla að jafnrétti?

Að vera í fararbroddi í jafnréttismálum hefur alla tíð verið eitt af markmiðum Hjallastefnunnar. Segja má, með sanni, að jafnréttishugmyndafræðin hafi fylgt Hjallastefnunni frá fyrsta degi enda er Hjallastefnan jafnréttisstefna í sjálfu sér. Frá upphafi Hjallastefnunnnar hefur mikill metnaður verið lagður í að gæta jafnréttis milli nemenda og starfsmanna og kristallast sá metnaður einna helst í meginreglum og kynjanámskrá stefnunnar.

 

Meginreglur Hjallastefnunnar eru grundvöllurinn að öllu starfi Hjallastefnuskólanna, meginreglurnar eru í senn stefnuyfirlýsing og hugmyndafræði Hjallstefnuskólanna og fela þær í sér þá lífsýn og mannskilning sem Hjallastefnan stendur fyrir og starfsfólk sameinast um. Meginreglurnar eru sex og er hægt að nálgast þær hér (setja inn hlekk) á síðunni. Í stuttu máli er þeim ætlað að stuðla að því að hverju barni sé mætt eins og það er, að ólíkar þarfir aldurshópa, kynja og einstaklinga séu viðurkenndar og virtar. Meginreglunum er ætlað að stuðla að því að jákvæðni, gleði og kærleikur séu ráðandi öfl í skólastarfi, að samfélag innan hvers skóla sé einfalt, gagnsætt og að jafnvægi haft í öndvegi. Innan Hjallastefnunnar ber hverjum skóla að virða valfrelsi og ólíkan áhuga barna og hlúa ávíðfeman hátt að velgengni allra.

 

Skólar Hjallastefnunnar búa aukinheldur að sérstakri kynjanámskrá og unnið er kerfisbundið eftir þeirri námskrá allan ársins hring. Kynjanámskráin er birtingarmynd á hugsjónum Hjallastefnunnar um jafnrétti stúlkna og drengja. Hið kynjaskipta skólastarf hefur það að markmiði að gera báðum kynjum jafn hátt undir höfði og að mæta ólíkum þörfum stúlkna og drengja. Það er ávallt markmið Hjallastefnunnar að gefa börnum kost á því að starfa og leika á eigin forsendum þar sem menning allra er virt og viðurkennd.

 

Jafréttisáherslur Hjallastefnunnar miða að því að gera góðan vinnustað enn betri og að gera starfsumhverfi Hjallastefnunnar eftirsóknarvert. Það er mikið kappsmál fyrir Hjallastefnuna að tryggja jafnrétti í víðasta skilningi orðsins. Hjallastefnan hefur einsett sér að vanda til verks og því voru kynntar til sögunnar jafnréttisáherslur Hjallastefnunnar og eru þær sem hér segir:

  • Launajafnrétti – sömu laun fyrir jafnverðmæt störf. Hjallastefnan ætlar sér að tryggja að konur og karlar fái sömu laun fyrir störf sín sem taka mið af kjarasamningum starfsmanna.
  • Jöfn aðstaða á vinnumarkaði – að vinnuaðstaða taki mið af báðum kynjum, aðgengi sé gott og aðbúnaður fatlaðra starfsmanna sé tryggður.
  • Misrétti, einelti, ofbeldi og/eða áreitni verður aldrei liðið hjá Hjallastefnunnu – komi mál upp af þeim toga þá verður sett af stað áætlun til þess að stöðva slíkt hið snarasta.
  • Kynjasamþætting – starfsfólk á að vera upplýst um samþættingu jafnréttissjónarmiða Hjallastefnunnar við meginstarfsemina og markmið í jafnréttismálum. Mikilvægt er að nýliðum sé boðið upp á fræðslu um jafnréttismál.
  • Jöfn ábyrgð á fjölskyldu og heimili – Hjallastefnan leggur áherslu á sveigjanleika starfsmanna þannig að þeir geti, óáð kyni, axlað ábyrgð á fjölskyldu sinni og heimili. Á þetta til að mynda við um það að nýta sér fæðingarorlofsrétt eða leyfis vegna veikinda barna.
  • Atvinnuauglýsingar, starfsþróun og ráningar – Hjallastefnan tekur mið af jafnréttissjónarmiðum þegar ráðið er í störf hjá fyrirtækinu. Laus störf standa báðum kynjum til boða og leitast er eftir því að jafna hlut kynjanna.

 

Jafnrétti er, og hefur verið, einn af grunnþáttum Hjallastefnunnar. Börn og starfsfólk eru upplýst og fá fræðslu um jafnrétti enda ríkuleg skylda sem hvílir á skólum landsins þegar að jafnréttismálum kemur.

 

Ef að misrétti er mannanna verk þá er jafnréttið það líka!