Hvar stendur Hjallastefnan gagnvart transbörnum?

Það er talið að kynímyndir barna séu mótaðar við tveggja ára aldurinn, þ.e. hugmyndir barnsins um hvað það þýðir að vera strákur eða stelpa og þar með getur barn vitsmunalega rekið sig á ef kynímynd þess passar ekki við líffræðilegt kyn. Á þessum aldri er hugsun þeirra mjög svart-hvít og það þýðir að þau máta sig við annað hvort kynið en eru ekki með vitsmunalega færni til að meta sig sem hvorugt eða á skala þarna á milli. Hérna er mikilvægt að muna að börn eru aðeins fárra mánaða þegar þau byrja að skilgreina allt í kringum sig sem annað hvort; karla eða konur, stelpur eða stráka og karllægt eða kvenlægt. Þetta er fyrsta breytan sem þau nota til að skilgreina heiminn, þessa óskiljanlegu ringulreið sem þau eru fædd inn í og þurfa að flokka og sortera til að koma reiðu á hugsun sína.

Ástæðan fyrir þessari ótrúlegu áherslu ungbarna á kynferði er ekki þekkt en er samt ástæða þess að þau staðsetja sig algjörlega sem annað hvort kynið. Ef barn skynjar að líffræðilega kynið passar sér ekki, er sjálfsagt að virða rétt þess til að skilgreina sig sjálft og viðurkenna það kyn sem barnið velur með viðeigandi nafni, klæðnaði og leikföngum. Það þarf ekki alltaf að þýða að barnið kjósi að skipta um líffræðilegt kyn síðar, það getur breyst þegar vitsmunaþroskinn ræður við abstrakt hugsun og þar með fjölbreyttar ímyndir og kynhlutverk og kynímynd á löngum skala á milli tveggja líffræðilegra kynja.

Mestu skiptir að foreldrar og fjölskylda sé í takti með leikskólanum þannig að barnið geti staðsett sig sem það kyn sem skynjar á leikskólaaldri. Önnur börn munu ekki gera athugasemdir við nýtt nafn ef þau fá einfaldlega upplýsingar um að barnið skynji sig hafa fæðst í röngum líkama því að fordómar koma aldrei frá börnum, heldur fullorðnum. Í kynjaskiptum hópum Hjallastefnunnar hefur okkur gengið mjög vel að mæta þessum tilfellum með einni undantekningu þó, því miður. Best hefur okkur reynst að bjóða barninu bara að velja sér drengjahóp eða stúlkahóp eftir að barnið hefur skilgreint sig að nýju. Eins vil ég nefna að þrátt fyrir kynjaskipta hópa hjá okkur, erum við mörgum framar að leiðrétta kynjaskekkjur og sem dæmi erum við með uniform skólaföt fyrir öll börn, engin hefðbundin leikföng eru til staðar og barnabækur, sögur og söngvar eru valin út frá því að innihalda ekki hefðbundin kynjahlutverk eða neikvæða ímynd af öðru hvoru kyninu.

Loks vil ég nefna að kynímynd eða kynímyndir barna hafa ekkert að gera með kynhneigð sem talin er mótuð við 5-6 ára aldurinn.