Hvers vegna notast Hjallastefnan við skólabúninga?

Skólabúningar eru notaðir í skólum Hjallastefnunnar, bæði börn og starfsfólk klæðast skólabúningum. Skólabúingarnir eru léttir og þægilegir og eru saumaðir úr slitsterku efni sem ætlað er að standast erilsaman vinnudag barna.

Markmiðið með skólabúningum er margþætt en sem dæmi má nefna þá kennistefnu Hjallastefnunnar að með samskonar fatnaði styrkist liðsheild allra barna og samkeppni dragist saman. Þess fyrir utan þá bjóða skólabúningarnir upp á það að öll börn mæti til skóla í þægilegum og slitsterkum vinnufatnaði á degi hverjum. Fötin eru hin sömu fyrir bæði kyn og er þeim ætlað að auka á samkennd og draga úr kynjabundnum viðhorfum til klæða.

Eins hefur það sýnt sig að fjárhagssparnaður getur verið umtalsverður þar sem börn sem notast við skólabúninga þurfa oft ekki nema tvö til þrjú sett af skólafötum og eru skólabúningar ódýrari en merkja- og tískuvara.

Foreldrar hafa lýst yfir ánægju með það hvernig skólabúningar hafa orðið til þess að tími sem áður fór í að velja föt geti nýst í aðra hluti.

Árið 2013 var unnin rannsókn á notkun skólafatnaðar á vegum Háskóla Íslands, voru fjölskyldur barna í Barnaskólanum í Garðabæ spurðir út í notkun skólabúningam og leiddi sú rannsókn meðal annars í ljós að:

  • 93% þátttakanda meðal foreldra barna í Barnaskólanum í Garðabæ töldu að skólaföt vernduðu börn þeirra fyrir félagslegum þrýstingi.
  • 96% þátttakenda töldu að það væri fjárhagslegur ávinningur að notkun skólafatnaðar.
  • 96% þátttakenda voru sammála því að skóli barnsins notaði skólaföt.