Í tengslum við náttúruna

Við veljum að staðsetja skólana okkar í nánum tengslum við náttúruna ef þess er kostur. Útisvæðin okkar eru rík af náttúrulegum efnivið með rannsóknarmöguleikum í drullumalli, klifri í trjám eða grjóti. Síðan heimsækjum við hefðbundna leikvelli í nágrenninu til að prófa leiktækin.

Þegar inn kemur, sjáið þið áberandi merkingar á hurðum, línur á gólfi, umferðarörvar og fleira sem kemur á óvart. Allt þetta er til að hjálpa öllum til að rata um skólann á góðan hátt, hvort sem er til að finna stjórnendur skólans eða eldhúsið. Við erum með eigin matarstaðla og bjóðum upp á heimagerðan og hollan mat.

Allt sem gerist í Hjallastefnuskóla byggir á hugsjónum sem eru nánar útskýrðar í meginreglum og kynjanámskrá. Meginreglurnar eru grunnur fyrir skólamenninguna og ákvarða lausnir í öllu skipulagi og aðferðum. Kynjanámskráin snýst um persónuþroska hvers barns svo og þá hegðun sem starfsfólk þarf að tileinka sér. Námskráin er iðkuð alla daga og myndar að auki lotur sem skipta skólaárinu upp í sex starfstímabil.

Kjarnarnir okkar

Kjarnar eru líka vel merktir en þeir eru vinnustaðir barnanna. Hugtakið kjarni er notað í stað deildar þar sem hver kjarni er mjög sjálfstæður og starfsfólkið sinnir flestum málum án aðkomu stjórnenda. Það er hluti af lýðræði Hjallastefnunnar. Kjarni er oftast um 20-24 börn og 3-4 starfsmenn eftir aldri barnanna.

Þegar komið er á kjarnann er fyrsta stofan svonefnd vinnustofa. Þar er rýminu skipt niður í nokkur leiksvæði sem eru notuð í leikjum barnanna á valtímum. Kubbakrókur, leirkrókur, sullkrókur og föndurkrókur með pláss fyrir ákveðinn fjölda barna í senn. Allt leikefnið okkar er svonefndur opinn efniviður eða leikefni (open-ended material) í stað leikfanga enda hafa börn góðan aðgang að dóti heima.

Inn af vinnustofunni eru leikstofur með samverumottum með ámáluðum plássum og númerum og svo dýnur og púðar. Í sumum leikskólum eru líka kubbastofur fyrir stóra kubba ef húsrúm leyfir.

Rósemd í fyrirrúmi

Margir verða undrandi yfir látleysi og einfaldleika í skólunum eins og sést á auðum veggjum og lokuðum skápum. Ástæða þess er að við kjósum rósemd í umhverfi barna og viljum auka á einbeitingu í leikjum og verkefnum án truflana frá sjónáreitum (visual noise) og öðrum hávaða.

Fjölmargir undrast líka þá kyrrð og ró sem ríkir í stórum leikskóla enda mælist minni hávaði í okkar skólum en öðrum. Það er svo sannarlega ekki vegna þess að börnin okkar megi ekki leika sér í fjöri heldur eru sérstakar aðstæður skapaðar til þess og öðrum tryggður friður á meðan. Fjörið er í fámennum hópum í hópatímum með kennara, í leikjum á útisvæði en aldrei allir úti eða inni í senn eða í leikstofu sem er aðeins með mjúkum dýnum, svamppúðum, teppum og fleiru sem má nota á hvern þann hátt sem ímyndunaraflið leyfir.

„Þegar fólk hrósar okkur foreldrunum fyrir að hafa gefið dætrum okkar gott uppeldi og kennt þeim jákvæðni, góð samskipti við aðra og að fara eftir fyrirmælum okkar foreldranna kemst ég ekki hjá því að hrósa Hjallastefnunni fyrir þá aðstoð því að án Hjallastefnunnar væri afrakstur uppeldis okkar langt í frá að vera sá sami. Þegar dætur mínar segja hluti á borð við „Þetta er allt í lagi, gengur bara betur næst…“ og „svona gerist á bestu bæjum“ … þá fyllist ég gleði og svo sannfærð um að jákvæðnin fylgi dætrum mínum í gegnum lífið og hjálpi þeim að takast á við erfiðar aðstæður á farsælan hátt.“

Hjallastefnumamma

Skóla- og starfsmannaföt

Starfsfólk og börn eru í skólafötum sem eykur á samheldni og eru auk þess þægileg vinnuföt sem má sjá á í dagsins önn. Hér má nálgast netverslunina með skólafötunum og fleiru sem fjölskyldum í Hjallastefnufjölskyldunni býðst.

Hópatímar

Milli klukkan 10 og 14 sjá gestir okkar hópastarf úti og inni þar sem hvert barn tilheyrir fámennum hópi og sami eða sömu kennarar starfa með hópnum allt skólaárið. Þarna eru skipulagðir hópatímar með dansi og hreyfingu, gönguferðum og þrautabrautum, málun, leirgerð og alls kyns föndri, tónlistarhlustun, söng og þulum, sögum og bóklestri og hverju því sem einkennir leikskólastarf.

Í þessum hópatímum er líka verið að æfa kynjanámskrána okkar, kjarkæfingar og jákvæðniæfingar, vináttu- og nálægðaræfingar, sjálfstraust og framkomu, virðingu í hegðun og orðanotkun eins og hrósyrði um sig og aðra svo dæmi séu nefnd.

Valtímar

Ef fólk kemur til okkar fyrir kl. 10 og eftir kl. 14 eru valtímarnir sem byrja með valfundi til að allir velji sér viðfangsefni og leiki. Þá er einfaldur og skapandi efniviður í boði ásamt leikstofu og útisvæði og kennarar eru til stuðnings og hvatningar. Allt leikefni er úthugsað til að börn geti ráðið við allt sjálf og þurfi ekki að kalla á aðstoð sem er mikil valdefling.

Valtímarnir mæta líka því að hjá okkur kemur enginn of seint og við finnum út úr morgunmat eða sendum barn með nesti í bílinn ef komu- og brottfarartími er óvenjulegur einhverja daga.

Við þökkum ykkur innilega fyrir þann áhuga sem þið sýnið Hjallastefnunni og bjóðum ykkur velkomin í heimsókn í Hjallastefnuskóla hjá okkur. Við viljum sérstaklega benda á að þótt margt sé líkt með öllum skólunum okkar, er samt mikill fjölbreytileiki því að hver starfsmannahópur með sínum stjórnendum skapar hið daglega skólastarf innan þess opna ramma sem stefnan okkar setur.

„Fjölmargir undrast líka þá kyrrð og ró sem ríkir í stórum leikskóla enda mælist minni hávaði í okkar skólum en öðrum. Það er svo sannarlega ekki vegna þess að börnin okkar megi ekki leika sér í fjöri heldur eru sérstakar aðstæður skapaðar til þess og öðrum tryggður friður á meðan.“

Hjallastefnuforeldri

Meiri upplýsingar um hugmyndafræði Hjallastefnunnar

Stoðirnar þrjár eru einföld framsetning á allri hugmyndafræði Hjallastefnunnar og felur í sér bæði meginreglur og kynjanámskrá stefnunnar. Allt starf og allar lausnir þurfa að standast ítarlega skoðun á því hvort þær hvíli raunverulega á stoðunum þremur; jafnrétti, lýðræði og sköpun. Hér má lesa allt um þær. 

texti

texti

„Það sem við vorum ánægðust með var félags-, viðhorfa- og tilfinningakennsla sem er ein af grunnstoðum Hjallastefnunnar.“

Hjallastefnumamma