Sjálfstæður rekstur

Hjallastefnan ehf. var stofnuð árið 1999 til að halda utan um sjálfstæðan rekstur á leik- og grunnskólastigi þar sem markmiðið var að skapa Hjallastefnunni sem skólastefnu sem bestar aðstæður til þróunar. Fyrirtækinu var einnig ætlað að valdefla konur og kvennastörf sem og að auka fjölbreytni í skólastarfi. Sem jafnréttisfélag hefur Hjallastefnan barist fyrir því að allir skólar njóti jafnræðis varðandi opinber fjárframlög og fyrir því að allir foreldrar fái notið valfrelsis þegar kemur að uppeldi og menntun barna sinna, óháð fjárhagsstöðu og öðrum þáttum. Hér eru nánari upplýsingar um rekstrarform Hjallastefnunnar:

Um aldamótin hillti undir breytta tíma í rekstri leikskóla hér á landi í kjölfar fregna frá hinum Norðurlöndunum af auknum áhuga á sjálfstæðum leikskólarekstri og útboðum sveitarfélaga á leikskólarekstrinum. Margrét Pála ákvað sem oft áður að vera viðbúin breytingum áður en þær dyndu yfir og stofnaði Hjallastefnuna ehf. árið 1999, rekstrarfélag fyrir skólarekstur þar sem hugsjónir og námskrá Hjallastefnunnar væru í fyrirrúmi. Hjallastefnan ehf. gerði sama ár samkomulag við Hafnarfjarðarbæ um rekstur Hjalla og þann fyrsta maí árið 2000 varð Hjalli fyrsti sjálfstætt starfandi leikskólinn á grundvelli nýrrar hugmyndafræði um þjónustusamninga í stað einkarekinna leikskóla sem nutu takmarkaðra styrkja og þurftu því að innheimta há gjöld frá foreldrum

Hjallasamningurinn varð þannig fyrirmynd að öllum þjónustusamningum um leikskóla á landinu. Markmið samningsins var hið sama og enn er hjá Hjallastefnunni ehf. – frelsi fagfólks, og þar með kvenna, til eigin athafna og fullt jafnræði milli leikskóla til fjárframlaga óháð rekstrarformi. Þannig var samið um sama framlag og sveitarfélagið hefði ella greitt fyrir rekstur Hjalla og að foreldrar greiði sömu leikskólagjöld í öllu sveitarfélaginu enda eiga börn í sveitarfélaginu forgang að leikskólavistun. Í samningnum eru gæði starfsins í fyrirrúmi, en það er til að mynda tryggt með þeim hætti að framlag til skólans er tengt hlutfalli fagfólks. Jafnframt var tryggt að greiðslur vegna sérkennslu væru metnar hverju sinni og að sveitarfélagið legði til húsnæði og þar með var það tryggt að kostnaður við húsnæði hefði ekki áhrif á daglegan rekstur leikskólans.

Með þessum samningi ábyrgist hið opinbera að leikskólarými séu fyrir hendi og á sömu kjörum fyrir alla – en afsalar sér afskiptum af daglegum rekstri og sinnir eingöngu eftirlitshlutverki. Hjallastefnan ehf. er afar ánægð með þetta fyrirkomulag sem tryggir að umsjón fagstarfsins er í höndum fagfólksins sjálfs hjá þessari stóru kvennastétt. Þannig er rekstrarform Hjallastefnunnar líka jafnréttisstarf þar sem starfsmannahópur hvers skóla starfar mjög sjálfstætt undir forystu skólastjórnenda og hver skóli skapar sitt eigið andrúmsloft og menningu þrátt fyrir að allir starfi að sameiginlegum markmiðum og hugsjónum. Hjallastefnan ehf. skapar samráðsvettvang og stuðningsnet hverju sinni.

Margrét Pála er enn aðaleigandi Hjallastefnunnar ehf., þessa hugsjónafélags og brautryðjanda í leik- og grunnskólastarfi þar sem hvorki hefur verið greiddur út arður né hlutabréf gengið kaupum og sölum þó svo að félagið sé hið langstærsta sinnar tegundar á Íslandi og sé í hópi stórfyrirtækja landsins hvað varðar veltu og starfsmannafjölda.

Loks má nefna að Samtök sjálfstæðra skóla, samtök leik- og grunnskóla sem starfa á sjálfstæðum grunni, voru stofnuð árið 2005 að frumkvæði Margrétar Pálu og annarra kvenna í sjálfstæðum skólarekstri og var það í fyrsta sinn sem slíkur samstarfsvettvangur skapaðist.

“Upphaf sssk”: Grein um stofnun Samtaka sjálfstæðra skóla 2005

“Sjálfstætt reknir grunnskólar; goðsögnum svarað”. Grein í Fréttablaðinu

“Atvinnumál kvenna, viðtal við Möggu Pálu”

Afmælisrit Samtaka sjálfstæðra skóla á 10 ára afmælinu 2015