Saga Hjallastefnunnar

Hjallastefnan á rætur sínar í íslensku þróunarstarfi sem hófst 1981 þegar höfundur stefnunnar, Margrét Pála Ólafsdóttir, lauk leikskólakennaranámi og byrjaði að vinna að nýjum hugmyndum í leikskólastarfi. Leikskólalíkanið í núverandi mynd hófst síðan 1989 í leikskólanum Hjalla í Hafnarfirði þegar Margrét Pála ásamt samhentum starfsmannahópi innleiddi óvenjulegt skólaskipulag og nýja starfshætti sem urðu margir hverjir mjög umdeildir á sínum tíma. Þar má nefna náttúrulegt útisvæði án hefðbundinna girðinga, leikfangaleysið eins og óbundni efniviðurinn var kallaður með neikvæðum formerkjum, óvenjulegt skipulag og agi sem margir brugðust illa við. Mesta gagnrýni hlaut þó hið kynjaskipta skólastarf sem í umræðunni var stundum nefnt kynskipting — sem var auðvitað mikill misskilningur.

 

Moldviðri og átök

Í kjölfarið á mikilli og neikvæðri fjölmiðlaumfjöllun og gagnrýni frá fagfólki á bæði uppeldis- og jafnréttissviði, byrjuðu háværar deilur milli Hjalla og Hafnarfjarðarbæjar um starfshætti leikskólans, fjármál, stjórnun eða um nánast allt sem sem laut að leikskólanum og Margréti Pálu. Þessu lyktaði með því að allt starfsfólk leikskólans ásamt leikskólafulltrúa sagði upp störfum þar sem hvorki traust né vinnufriður var lengur fyrir hendi. Foreldrar stóðu með Hjalla og beittu bæinn miklum þrýstingi um að semja við hópinn um stuðning við þessar nýju aðferðir. Að lokum náðist samningur um að leikskólastjóri og starfsmannahópurinn hefði fullt frelsi um starfshætti leikskólans og að bærinn myndi styðja bókarskrif og gerð heimildarmyndar. Jafnframt voru allar fyrri yfirlýsingar um kynjaskipta starfið og um misbresti í stjórnun dregnar til baka af hálfu bæjarins. Rétt er að taka fram að ítrekað var ráðist að Margréti Pálu og kynhneigð hennar blandað í málin, bæði á fundum og í fjölmiðlum en Margrét Pála var fyrsti kennarinn til að koma úr felum á tíma þegar samkynhneigð var enn álitin varasöm og alls ekki viðeigandi að „svona fólk” væri í starfi með börnum.

Bók og myndband um starfshættina á Hjalla

Árið 1992 gaf Mál og menning út bók Margrétar Pálu, „Æfingin skapar meistarann – leikskóli fyrir stelpur og stráka.“ Í bókinni lýsir hún hugsjónum Hjallastefnunnar, þróun hennar og reynslu fyrstu áranna á Hjalla. Á myndinni má sjá Margréti Pálu ásamt Laufeyju Ósk Kristófersdóttur, leikskólakennara á Hjalla sem tók ljósmyndirnar í bókinni.

Anne-Mette Kruse, lektor við Cekvina, kvennarannsóknarstofnun Árósaháskóla ritaði eftirmála að bókinni þar sem hún segir m.a. „Á síðasta áratug vorum við Margrét Pála Ólafsdóttir báðar að hugleiða hvernig unnt væri að stuðla að jafnrétti kynjanna í menntastofnunum. Hugmyndir okkar féllu í sama farveg, þótt við vissum ekki hvor af annarri og sætum sín í hvoru landi. Það kom í ljós að við vorum sammála um tvennt:

Að frumkvæði Anne-Mette Kruse var einnig gerð heimildarmynd árið 1992 ásamt samnefndu fylgiriti; „Að klífa hjallann – ný leið í leikskólastarfi”. Myndin og fylgiritið voru gefin út á sex tungumálum með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar og var hún sýnd á sjónvarpsstöðvum allra Norðurlandanna nema á Íslandi. Fylgirit með samnefndu myndbandi hefur verið gefið út á sex tungumálum. Íslensk útgáfa myndbands og fylgiritsins var í höndum Námsgagnastofnunar.

Í kjölfarið hófst mikill gestagangur sem enn sér ekki fyrir endann á hjá Hjallastefnunni. Þúsundir kennara frá Norðurlöndunum heimsóttu Hjalla enda var hann nefndur „umtalaðasti leikskóli Evrópu“ í stóru uppeldistímariti. Enn streyma gestirnir að í hundraðatali á ári hverju en nú er það oftast erlent fjölmiðlafólk sem sækir landið heim í ljósi sterkrar jafnréttisstöðu þjóðarinnar. Þannig hefur verið fjallað um Hjallastefnuna í fjölmörgum þekktum og stórum miðlum eins og CNN, Euronews, ITV, Economist og Guardian yfir í sjónvarpsstöðvar í Japan og Ástralíu svo dæmi séu tekin.

Eins hefur Hjallastefnan verið kynnt á fjölmörgum ráðstefnum bæði á Íslandi og í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu og Margrét Pála hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir höfundaverk sitt.

Hjallastefnan leiðir för: Ég er frábær!

Hjallastefnan hefur ávallt verið á undan sinni samtíð og haft mun meiri áhrif en fólk gerir sér gein fyrir á íslenska leik- og grunnskóla svo og samfélagið allt. Eins hefur Hjallastefnan prófað sig áfram með ýmislegt sem þótti tilraunakennt eða galið þá en þykir sjálfsagt eða jafnvel „frábært“ í dag.

1. Hvatningarhugtakið „frábært“ var tekið í notkun á Hjalla sem ókynbundið hugtak sem er eins fyrir bæði kynin. Hjallastarfsfólk nýtti hugtakið líka til að hvetja sjálft sig áfram en mörgum þótti of langt gengið þegar starfsfólkið gekk um í bolum með áletruninni: Ég er frábær! Síðar hafa margir öðlast skilning á gildi jákvæðrar orðræðu í eigin garð og bolurinn góði öðlast ótal framhaldslíf.

2. Hugtök og orðanotkun Hjallastefnunnar hafa fyrir löngu öðlast sess í tungumálinu. Nýyrði eins og „kjörnun“ og að „kjarna eitthvað“ heyrist nú víða, „hvað er í boði“ og hvað ekki hefur fengið nýja merkingu og ávörpin okkar; „kæra vinkona“ og „kæri vinur“ eru vel þekkt. Til gamans má nefna að í átökum á Alþingi Íslendinga hefur heyrst: „Kæru vinir, nú skulum við taka Hjallastefnuna á þetta og kjarna okkur“. 🙂

3. Hjallastefnan hefur ávallt unnið að umhverfisvernd á margan hátt. Á tímabili var Hjalli svo umhverfisvænn að leikskólinn var skúraður upp úr afgangs mjólk, allur pappír var endurunnin af börnunum og í safnhaugnum í garðinum mátti finna sýnishorn úr öllu dýraríki Hafnarfjarðar.

4. Hjallastefnuskólar hafa í áraraðir talað fyrir náttúrulegum útisvæðum en lengi vel við lítinn skilning. Þetta er þó að breytast núna þegar hver skólinn á fætur öðrum útbýr sér svokallaðar útikennslustofur.

5. Það var afar umdeilt þegar Hjallastefnan tók upp skólaföt fyrir bæði börn og fullorðna. Nú eru margir skólar sem bjóða upp á skólaföt og er skilningur á kostum þeirra vaxandi. Í nýlegri foreldrakönnun kom í ljós að meirihluti foreldra skólabarna myndi kjósa skólaföt fyrir börn sín.

6. Mest notaða leikskólakerfi landsins fyrir starfsfólk og foreldra var hannað og þróað á Hjalla á sínum tíma.

7. Mörg önnur dæmi má nefna eins og útskriftarbók (portfolio), enskukennslu fyrir leikskólabörn og þriggja daga vorferðir fyrir fimm ára börn og svo grunnskólabörn.

 

Hjallastefnan vex á bæði leik- og grunnskólastigi

Árið 2001 gerði Hjallastefnan þjónustusamning við Garðabæ um rekstur leikskólans Ása. Þar með var komið fordæmi að því að reka fleiri en einn leikskóla og síðan hefur rekstur Hjallastefnunnar aukist að umfangi og leikskólarnir bæst við einn af öðrum.

Haustið 2003 rættist langþráður draumur þegar Hjallastefnan hóf rekstur fyrsta grunnskólans á grunnskólastigi. Þetta var Barnaskóli Hjallastefnunnar í Garðabæ og síðar bættust sambærilegir skólar við í Hafnarfirði og Reykjavík. Barnaskólarnir okkar eru upp í fjórða bekk þannig að börnin okkar eru níu ára þegar þau kveðja okkur en tilraunir hafa verið gerðar með 10-12 ára börn eða miðstigið. Hjallastefnan virkar jafnvel fyrir þann aldur og yngri börn en fjárhagshliðin reyndist okkur ofviða enda enginn stofnkostnaður fáanlegur og allt framlag til sjálfstætt starfandi grunnskóla miklum mun lægri en til annarra skóla. Árið 2012 tók Hjallastefnan við sameinuðum leik- og grunnskóla í Tálknafirði í tilraunaskyni.

Nú er Hjallastefnan með samninga við ellefu sveitarfélög um rekstur fjórtán leikskóla og þriggja grunnskóla með um 1.500 börnum og yfir 400 starfsmönnum.

Hjallastefnan ehf. var stofnuð árið 1999 til að halda utan um sjálfstæðan rekstur á leik- og grunnskólastigi þar sem markmiðið var að skapa Hjallastefnunni sem skólastefnu sem bestar aðstæður til þróunar. Fyrirtækinu var einnig ætlað að valdefla konur og kvennastörf sem og að auka fjölbreytni í skólastarfi. Sem jafnréttisfélag hefur Hjallastefnan barist fyrir því að allir skólar njóti jafnræðis varðandi opinber fjárframlög og fyrir því að allir foreldrar fái notið valfrelsis þegar kemur að uppeldi og menntun barna sinna, óháð fjárhagsstöðu og öðrum þáttum.

Hjallastefnan er því frumkvöðull í rekstri menntafélags með marga skóla og er starfið í sífelldri þróun sem leitast við að finna jafnvægi milli þess að setja miðlægar kröfur en um leið að veita hverjum skóla það frelsi að hann geti skapað sína eigin menningu.