Algengar spurningar

Það er talið að kynímyndir barna séu mótaðar við tveggja ára aldurinn, þ.e. hugmyndir barnsins um hvað það þýðir að vera strákur eða stelpa og þar með getur barn vitsmunalega rekið sig á ef kynímynd þess passar ekki við líffræðilegt kyn. Á þessum aldri er hugsun þeirra mjög svart-hvít og það þýðir að þau máta sig við annað hvort kynið en eru ekki með vitsmunalega færni til að meta sig sem hvorugt eða á skala þarna á milli. Hérna er mikilvægt að muna að börn eru aðeins fárra mánaða þegar þau byrja að skilgreina allt í kringum sig sem annað hvort; karla eða konur, stelpur eða stráka og karllægt eða kvenlægt. Þetta er fyrsta breytan sem þau nota til að skilgreina heiminn, þessa óskiljanlegu ringulreið sem þau eru fædd inn í og þurfa að flokka og sortera til að koma reiðu á hugsun sína.

Ástæðan fyrir þessari ótrúlegu áherslu ungbarna á kynferði er ekki þekkt en er samt ástæða þess að þau staðsetja sig algjörlega sem annað hvort kynið. Ef barn skynjar að líffræðilega kynið passar sér ekki, er sjálfsagt að virða rétt þess til að skilgreina sig sjálft og viðurkenna það kyn sem barnið velur með viðeigandi nafni, klæðnaði og leikföngum. Það þarf ekki alltaf að þýða að barnið kjósi að skipta um líffræðilegt kyn síðar, það getur breyst þegar vitsmunaþroskinn ræður við abstrakt hugsun og þar með fjölbreyttar ímyndir og kynhlutverk og kynímynd á löngum skala á milli tveggja líffræðilegra kynja.

Mestu skiptir að foreldrar og fjölskylda sé í takti með leikskólanum þannig að barnið geti staðsett sig sem það kyn sem skynjar á leikskólaaldri. Önnur börn munu ekki gera athugasemdir við nýtt nafn ef þau fá einfaldlega upplýsingar um að barnið skynji sig hafa fæðst í röngum líkama því að fordómar koma aldrei frá börnum, heldur fullorðnum. Í kynjaskiptum hópum Hjallastefnunnar hefur okkur gengið mjög vel að mæta þessum tilfellum með einni undantekningu þó, því miður. Best hefur okkur reynst að bjóða barninu bara að velja sér drengjahóp eða stúlkahóp eftir að barnið hefur skilgreint sig að nýju. Eins vil ég nefna að þrátt fyrir kynjaskipta hópa hjá okkur, erum við mörgum framar að leiðrétta kynjaskekkjur og sem dæmi erum við með uniform skólaföt fyrir öll börn, engin hefðbundin leikföng eru til staðar og barnabækur, sögur og söngvar eru valin út frá því að innihalda ekki hefðbundin kynjahlutverk eða neikvæða ímynd af öðru hvoru kyninu.

Loks vil ég nefna að kynímynd eða kynímyndir barna hafa ekkert að gera með kynhneigð sem talin er mótuð við 5-6 ára aldurinn.

Skólabúningar eru notaðir í skólum Hjallastefnunnar, bæði börn og starfsfólk klæðast skólabúningum. Skólabúingarnir eru léttir og þægilegir og eru saumaðir úr slitsterku efni sem ætlað er að standast erilsaman vinnudag barna.

Markmiðið með skólabúningum er margþætt en sem dæmi má nefna þá kennistefnu Hjallastefnunnar að með samskonar fatnaði styrkist liðsheild allra barna og samkeppni dragist saman. Þess fyrir utan þá bjóða skólabúningarnir upp á það að öll börn mæti til skóla í þægilegum og slitsterkum vinnufatnaði á degi hverjum. Fötin eru hin sömu fyrir bæði kyn og er þeim ætlað að auka á samkennd og draga úr kynjabundnum viðhorfum til klæða.

Eins hefur það sýnt sig að fjárhagssparnaður getur verið umtalsverður þar sem börn sem notast við skólabúninga þurfa oft ekki nema tvö til þrjú sett af skólafötum og eru skólabúningar ódýrari en merkja- og tískuvara.

Foreldrar hafa lýst yfir ánægju með það hvernig skólabúningar hafa orðið til þess að tími sem áður fór í að velja föt geti nýst í aðra hluti.

Árið 2013 var unnin rannsókn á notkun skólafatnaðar á vegum Háskóla Íslands, voru fjölskyldur barna í Barnaskólanum í Garðabæ spurðir út í notkun skólabúningam og leiddi sú rannsókn meðal annars í ljós að:

  • 93% þátttakanda meðal foreldra barna í Barnaskólanum í Garðabæ töldu að skólaföt vernduðu börn þeirra fyrir félagslegum þrýstingi.
  • 96% þátttakenda töldu að það væri fjárhagslegur ávinningur að notkun skólafatnaðar.
  • 96% þátttakenda voru sammála því að skóli barnsins notaði skólaföt.

Að vera í fararbroddi í jafnréttismálum hefur alla tíð verið eitt af markmiðum Hjallastefnunnar. Segja má, með sanni, að jafnréttishugmyndafræðin hafi fylgt Hjallastefnunni frá fyrsta degi enda er Hjallastefnan jafnréttisstefna í sjálfu sér. Frá upphafi Hjallastefnunnnar hefur mikill metnaður verið lagður í að gæta jafnréttis milli nemenda og starfsmanna og kristallast sá metnaður einna helst í meginreglum og kynjanámskrá stefnunnar.

 

Meginreglur Hjallastefnunnar eru grundvöllurinn að öllu starfi Hjallastefnuskólanna, meginreglurnar eru í senn stefnuyfirlýsing og hugmyndafræði Hjallstefnuskólanna og fela þær í sér þá lífsýn og mannskilning sem Hjallastefnan stendur fyrir og starfsfólk sameinast um. Meginreglurnar eru sex og er hægt að nálgast þær hér (setja inn hlekk) á síðunni. Í stuttu máli er þeim ætlað að stuðla að því að hverju barni sé mætt eins og það er, að ólíkar þarfir aldurshópa, kynja og einstaklinga séu viðurkenndar og virtar. Meginreglunum er ætlað að stuðla að því að jákvæðni, gleði og kærleikur séu ráðandi öfl í skólastarfi, að samfélag innan hvers skóla sé einfalt, gagnsætt og að jafnvægi haft í öndvegi. Innan Hjallastefnunnar ber hverjum skóla að virða valfrelsi og ólíkan áhuga barna og hlúa ávíðfeman hátt að velgengni allra.

 

Skólar Hjallastefnunnar búa aukinheldur að sérstakri kynjanámskrá og unnið er kerfisbundið eftir þeirri námskrá allan ársins hring. Kynjanámskráin er birtingarmynd á hugsjónum Hjallastefnunnar um jafnrétti stúlkna og drengja. Hið kynjaskipta skólastarf hefur það að markmiði að gera báðum kynjum jafn hátt undir höfði og að mæta ólíkum þörfum stúlkna og drengja. Það er ávallt markmið Hjallastefnunnar að gefa börnum kost á því að starfa og leika á eigin forsendum þar sem menning allra er virt og viðurkennd.

 

Jafréttisáherslur Hjallastefnunnar miða að því að gera góðan vinnustað enn betri og að gera starfsumhverfi Hjallastefnunnar eftirsóknarvert. Það er mikið kappsmál fyrir Hjallastefnuna að tryggja jafnrétti í víðasta skilningi orðsins. Hjallastefnan hefur einsett sér að vanda til verks og því voru kynntar til sögunnar jafnréttisáherslur Hjallastefnunnar og eru þær sem hér segir:

  • Launajafnrétti – sömu laun fyrir jafnverðmæt störf. Hjallastefnan ætlar sér að tryggja að konur og karlar fái sömu laun fyrir störf sín sem taka mið af kjarasamningum starfsmanna.
  • Jöfn aðstaða á vinnumarkaði – að vinnuaðstaða taki mið af báðum kynjum, aðgengi sé gott og aðbúnaður fatlaðra starfsmanna sé tryggður.
  • Misrétti, einelti, ofbeldi og/eða áreitni verður aldrei liðið hjá Hjallastefnunnu – komi mál upp af þeim toga þá verður sett af stað áætlun til þess að stöðva slíkt hið snarasta.
  • Kynjasamþætting – starfsfólk á að vera upplýst um samþættingu jafnréttissjónarmiða Hjallastefnunnar við meginstarfsemina og markmið í jafnréttismálum. Mikilvægt er að nýliðum sé boðið upp á fræðslu um jafnréttismál.
  • Jöfn ábyrgð á fjölskyldu og heimili – Hjallastefnan leggur áherslu á sveigjanleika starfsmanna þannig að þeir geti, óáð kyni, axlað ábyrgð á fjölskyldu sinni og heimili. Á þetta til að mynda við um það að nýta sér fæðingarorlofsrétt eða leyfis vegna veikinda barna.
  • Atvinnuauglýsingar, starfsþróun og ráningar – Hjallastefnan tekur mið af jafnréttissjónarmiðum þegar ráðið er í störf hjá fyrirtækinu. Laus störf standa báðum kynjum til boða og leitast er eftir því að jafna hlut kynjanna.

 

Jafnrétti er, og hefur verið, einn af grunnþáttum Hjallastefnunnar. Börn og starfsfólk eru upplýst og fá fræðslu um jafnrétti enda ríkuleg skylda sem hvílir á skólum landsins þegar að jafnréttismálum kemur.

 

Ef að misrétti er mannanna verk þá er jafnréttið það líka!

 

Hvar sæki ég um leikskólapláss?

 

Heppilegasta leiðin til þess að sækja um leikskólapláss er sú að senda póst á leikskólastjórann í þeim leikskóla sem þú hefur í hyggju að senda barn þitt á. Sveitafélögin á Íslandi eru með mismunandi skráningarkerfi og því er heppilegast að skólastjórar í hverjum skóla veiti leiðsögn og ráðleggingar. Leikskólastjórar Hjallastefnunnar eru ávallt reiðubúnir til þess að veita liðsinni, svara spurningum og deila upplýsingum.

Hjallastefnustarf er í boði á leikskólastigi víða um land eða í alls ellefu sveitarfélögum eins og sést hér. Hins vegar eru grunnskólar Hjallastefnunnar aðeins á yngsta stigi eða frá fimm eða sex ára og til og með níu ára. Þeir eru aðeins þrír talsins og allir á höfuðborgarsvæðinu eða í Garðabæ, Hafnarfirði og í Reykjavík. Aðeins einn leik- og grunnskóli frá eins árs og upp í 16 ára er starfræktur undir merki Hjallastefnunnar og það er í Tálknafirði samkvæmt samningi milli okkar og sveitarfélagsins sem kostar rekstur skólans á sama hátt og áður en við tókum við rekstrinum.

Markmið okkar er að bjóða upp á annars konar leikefni og barnaefni en börn eiga á heimilum sínum þannig að leikskólinn verði viðbót við þá reynslu sem börn öðlast heima. Því kemur hið fábreytta og óbundna leikefni Hjallastefnuskólanna mörgum spánskt fyrir sjónir til að byrja með en þegar fylgst er með leikjum barnanna okkar litla stund, breytast viðhorfin fljótt. Best má trúlega lýsa því með orðum barnanna okkar. Einn drengur var til dæmis spurður í fjölskylduboði hvort það væri ekki leiðnlegt að leikskólinn hans væri ekki með dót. Hann svarað strax að það væri víst fullt af dóti og að hann væri alltaf að leika sér. Stúlka nokkur sagði aðspurt um vöntun á púsluspilum: „Við búum þau bara til ef við viljum.“ Lesa meira

Leikefnið okkar eru trékubbar af ýmsum gerðum, heimagerður leir, pappír og litir og málning og föndurefni af ýmsum toga, vatn og sandur, dýnur og púðar og teppi og borð auk skapandi efnis í hópastarfi. Allt byggir á hugmyndum okkar um ímyndun og sköpun barnanna sjálfra í leiknum og valdefla þau til að leita að sínum eigin lausnum. Eins er náttúrulegur efniviður okkur mikilvægur sem og leikefni sem hvetur til samvinnu en ekki samkeppni og eftirfarandi yfirlit sýnir betur hvaða kröfur við gerum til þess efnis sem kemur inn í skólana okkar hverju sinni. Síðan búa börnin sjálf til raðspil og púsl og litabækur með eigin teikningum og hvað eina sem okkur dettur í hug.

Barnabækur sækja hóparnir sér á bókasöfn sem við notum mikið. Við veljum þó bækurnar af gætni út frá innihaldi og lesum aldrei fyrir stóran hóp heldur lesum með fámennum hópi. Síðan leggjum við mesta áherslu á sögur, bæði sem kennarar segja og svo sögur sem börnin spinna sjálf og eigin bókagerð. Ljósmyndabækur eru líka vinsælar, bæði aðfengnar og einnig bækur með myndum af starfi barnanna sjálfra í leikskólanum.

Setja inn töflu úr Handbók leikskóla sem útskýrir hvers konar efnivið við kjósum

Við vitum að mikið er til af frábærum og þroskandi leikföngum sem henta mjög vel fyrir barnið heima. Við hvetjum foreldra til að búa vel að leikaðstæðum barnsins, leika stundum með þeim og styðja þau einnig til að geta dundað sjálf með dótið sitt. Sannast sagna er víða allt of mikið af dóti sem getur unnið gegn því að börn nái að þróa góðan leik og því hvetjum við líka foreldra til að snarminnka allt dótamagnið sem flest barnaherbergi búa yfir til að hjálpa börnum til að slaka á, ná meiri einbeitingu og þar með lengri og betri leiktíma í næði.

Hið sama gildir um barnabækurnar sem henta frábærlega fyrir samlestur og samskoðun barns og foreldris, t.d .fyrir svefninn. Þá getur barn og foreldri rætt og spjallað um söguna og myndirnar og barnið nýtur allrar athyglinnar og tímans. Slíkur lestur er óendanlega mikilvægur fyrir bæði málþroska barnsins og tilfinningaþroskann í öryggi og skjóli foreldris og heimilis og hóplestur leikskólans kemur aldrei í staðinn fyrir þetta hlutverk foreldranna.

Jafnréttisstarfið í Hjallastefnuskólunum felst annars vegar í kynjaskiptu starfi stóran hluta dagsins og hins vegar í daglegri samveru kynjanna þar sem virðing og raunveruleg samvinna stúlkna og drengja er æfð á jákvæðan hátt. Að baki aðferðum okkar liggja hugsjónir sem við höfum þróað yfir í hagnýtar lausnir og starf með börnum um árabil og hafa skilað okkur góðum árangri. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á stefnunni, hafa sýnt hið sama og erlendar rannsóknir til fjölda ára, þ.e. að kynjaskipt skólastarf getur verið mjög öflug aðferð en vissulega ekki nema með skýrum markmiðum og vel ígrunduðum leiðum rétt eins og í öllu skólastarfi.

Kynjaskiptingunni er ætlað að styrkja bæði kyn á þeirra eigin forsendum eða það sem við nefnum uppbótarvinnu Hjallastefnunnar. Þar er kenning okkar í sinni einföldustu mynd að stúlkur þurfi meiri hvatningu og styrkingu í einstaklingseiginleikum heldur en drengir og á sama hátt þurfi drengir meiri þjálfun og hvatningu í félagslegum eiginleikum. Þessi kenning byggir m.a. á kynjakvarða Hjallastefnunnar sem má nálgast hér ásamt kenningu okkar um kynjablöndun sem „öfuga speglun“ þar sem kynin spegla sig í hinu kyninu til að skilgreina hvaða hegðun, áhugi og leikir séu „stelpulegir“ eða „strákalegir.“

Eins er kynjaskiptingin okkar leið til að gefa báðum kynjum réttlátan skammt af gæðum skólans sem ávallt mælist drengjum í hag, þ.e. mikill meirihluti alls rýmis bæði úti og inni, athygli og hvatning kennara og fleira fer til drengja. Þessi bróðurpartur er þó oft neikvæður því drengir eru ávítaðir fyrir slaka hegðun og heyra að þeir nái ekki sama árangri í skólanum eins og stúlkurnar. Þær eru hins vegar á undan í ýmsum þáttum skólaþroskans s.s. einbeitingu og fínhreyfingum eins og samhæfingu augna og handa og því er námið oft of létt fyrir stúlkurnar. Upplýsingar um hið samfélagslega misréttis sem kynjaskiptingin byggir á, má finna hér.

Mikilvægur hluti jafnréttisuppeldis okkar er líka að skólafötin eru eins fyrir bæði kyn, allt leikefni er eins og aldrei með einhverri kynjaðri skírskotun og sömu verkefni og sömu tilboð eru fyrir bæði kyn þótt margt útfærist ólíkt út frá þörfum hópanna.