Stoðirnar þrjár

Jafnrétti - Lýðræði - Sköpun

Stoðirnar þrjár eru einföld framsetning á allri hugmyndafræði Hjallastefnunnar og fela í sér bæði meginreglur og kynjanámskrá stefnunnar. Allt starf og allar lausnir þurfa að standast ítarlega skoðun á því hvort þær hvíli raunverulega á stoðunum þremur; jafnrétti, lýðræði og sköpun.

Jafnrétti

  • Allt umhverfi skólans er einfalt og skiljanlegt til að skapa næði og öryggi fyrir hvert barn.
  • Sýnileg og snertanleg fyrirmæli eins og umferðarörvar á gólfum, merktir skápar og hillur fyrir leikefni til að allir læri strax á umhverfið.
  • Hvert barn á sitt eigið, merkta fatahólf, eigið pláss á samverumottu og skúffu undir eigin verk.
  • Dagskipulagið er eins alla daga, gagnsætt og einfalt til að öll börn viti hvernig hver dagur verður og hvað er næst hverju sinni.
  • Leikefni er einfalt og hvetur til samvinnu en ekki samkeppni.
  • Umhverfið er einfalt, hirslur lokaðar og veggir og borð án óreiðu og óþarfa sjávaða (visual noise).
  • Allir eru í skólafötum og eru þannig í sama liði og jafnréttháir, óháð fjárhagsstöðu foreldra.
  • R-reglur Hjallastefnunnar eru röð, regla og rútína, festa og öryggi fyrir hvert barn.
  • Í daglegu starfi æfa allir virðingu og jákvæðan aga sem skapar rósemd og dregur úr hávaða.
  • Starfsfólk samræmir viðbrögð og reglur sem allir fylgja s.s. að ganga um skólann í röðum, bíða á biðplássum o.s.frv.
  • Samkvæmni starfsmanna er innbyggð í starfsemina því réttur barna og reglur skólans eru samtímis hugmyndafræði Hjallastefnunnar og útfærsla hennar.
  • Starfsfólk samræmir einnig orðanotkun og hugtök í starfi með börnum.
  • Hverju barni ber að njóta réttinda og mannhelgi og þar má nefna kærleika og góða umönnun, athygli og hvatningu á besta hátt, leiki og nám við hæfi og virðingu í hvívetna.
  • Starfsfólk skuldbindur sig til að æfa jákvæðni, ástunda gleði og sýna kærleika í starfi samkvæmt meginreglum Hjallastefnunnar.
  • Skólinn allur skuldbindur sig til sveigjanleika og þjónustu við barnafjölskyldur, þess vegna geta börn og fjölskylda leitað eftir aðstoð með ótrúlegustu hluti. Prófið bara …
  • Gæðaeftirlit er m.a. með foreldrakönnunum til að bæta stöðugt samvinnu heimilis og skóla.
  • Hvert einasta barn er umfaðmað með gleði og kærleika þegar það kemur í skólann.
  • Hvert barn heldur upp á afmælið sitt á einstakan hátt; bakar og býður hópnum til veislu.
  • Hvert barn tilheyrir fámennum hópi til að allir fái rými og athygli fyrir sig – enginn gleymist.
  • Fámennir hópar hafa einn til tvo hópstjóra sem tengjast sínum börnum sérstökum tilfinningaböndum og sjá um samskiptin við foreldra.
  • Hópstjórar eru með sinn hóp stóran hluta dagsins í hópatímum og máltíðum.
  • Mannréttindi barna eru virt með vali þeirra sjálfra við matarborðið, hvort þau kjósa að leika sér úti eða inni og hvernig þau klæða sig fyrir útivistina.
  • Skólaföt eru fyrir börn og starfsfólk svo allir skynji sig jafn réttháa í samfélagi skólans.
  • Valfundir eru á undan leiktíma barnanna svo að hvert barn geti fylgt áhuga sínum og vaxið á eigin áhugasviði.
  • Hópatímar eru daglega til að kennarar styðji hvert barn í persónulegum þroska svo það njóti hæfileika sinna og æfist í nýrri færni.
  • Hjallastefnan nýtir hið félagslega kynferði sem áhald til að vinna gegn takmörkunum hefðbundinna kynjahlutverka sem og til að mæta ólíkum þörfum og þroska stúlkna og drengja.
  • Allt sem gerist í starfi hóps af sama kyni, dregur úr kynbundnum áherslum því ekkert er lengur „strákalegt“ eða „stelpulegt“ í hefðbundinni merkingu – allir prófa allt og uppfylla öll hlutverk.
  • Kynjaskipting er því okkar leið í jafnréttissátt, þar sem börnin starfa á stúlkna- og drengjakjörnum stóran hluta dagsins.
  • Þau börn sem skynja líkamlegt kyn annað en félagslegt kyn, eiga rétt á að velja sér kjarna eftir eigin óskum.
  • Stúlkur og drengir fá því tækifæri til að leika og læra á eigin forsendum í kynjaskiptum jafningjahópi  án takmarkana hefðbundinna kynhlutverka.
  • Bæði kyn prófa alls konar leikefni og verkefni sem í kynjablöndun eru oft einokuð af öðru kyninu.
  • Bæði kyn þjálfast í öllum sammennskum eiginleikum með svonefndri uppbótarvinnu:
  • Drengir þurfa aukastyrkingu í félagslegum eiginleikum eins og samvinnu, umhyggju, nálægð og að nota orðin sín í stað átaka.
  • Stúlkur þurfa aukastyrkingu í einstaklingseiginleikum eins og sjálfstrausti, hugrekki, frumkvæði og að láta rödd sína heyrast í stað þess að draga sig til baka.
  • Með uppbótarvinnunni öðlast öll börn fjölbreytta reynslu og ráða yfir markháttaðri færni.
  • Daglega er kynjablöndun þar sem börn á sama aldri hittast og æfa virðingu og samskipti í skipulögðu og kennarastýrðu starfi til að blöndunin verði jákvæð og eftirsóknarverð reynsla.
  • Kjarnar eru kenndir við liti eins og Rauðikjarni (drengir) og Bláikjarni (stúlkur) til að brjóta upp hugmyndir um „stelpulegt“ og „strákalegt“.
  • Skólafötin eru eins fyrir öll börn og val um tvo liti, bláan og rauðan og virðast litirnir ámóta vinsælir á stúlknakjörnum og á drengjakjörnum.
  • Leikefni er óbundinn efniviður án nokkurra kynbundinna tilvísana og því eru ekki hefðbundin leikföng notuð í skólanum.
  • Bækur, sögur, söngvar og annað efni er skoðað út frá kynja- og kynþáttatilvísunum og eingöngu valið efni sem stenst allar jafnréttiskröfur.

Lýðræði

  • Skýr lína er dregin milli þess sem við teljum vera mannréttindi barna og þess sem fullorðnum ber að taka ábyrgð á sem uppalendur.
  • Við ákvarðanir er skýrt hvað er innan mannhelgi barna og hvað ekki.
  • Börn eiga rétt á að meta veður áður en þau klæða sig til útivistar.
  • Börn eiga ávallt val um morgunverð og val um hvað þau borða (fyrir utan æfingarbita).
  • Börn eru aldrei knúin til að klára af diskinum á einn eða annan hátt svo þau læri á magamálið sitt.
  • Börn hafa vatn og ávaxtabita innan seilingar á valtímum svo þau geti fengið sér hressingu.
  • Börn geta farið á salernið án þess að biðja um leyfi.
  • Börn velja sjálf um verkefni helming dagsins, þ.e. í valtímum.
  • Börn hafa rétt á að koma með eitthvað að heiman og sýna vinkonum og vinum (því þarfir barna trufla ekki starfið) og geyma það í sínu hólfi þess á milli.
  • Kennarar biðja og bjóða börnum í stað þess að „láta“ börn gera hitt og þetta sem oft brýtur á réttindum þeirra.
  • Hlutverk kennara að æfa og þjálfa félagslega hegðun, markmiðið er að öllum börnum gangi vel á degi hverjum.
  • Kennarar eru ávallt til staðar og vakandi yfir börnum við allar aðstæður.
  • Reglubrot eru stöðvuð umsvifalaust af kennurum á ákveðinn hátt.
  • Kennarar hjálpa strax barni sem ruglast í hegðun með festu og hlýju í senn.
  • Kennarar fylgja eftir fyrirmælum um frágang og hvað annað sem á að gerast til að allir æfi röð og reglu en þjálfist ekki í að hunsa sanngjörn fyrirmæli.
  • Kennarar stýra helmingi dagskrárinnar í hópatímum og börn fylgja fyrirmælum.
  • Umhverfi og dagskrá er byggt upp sem lítið samfélag með reglum og fyrirkomulagi sem er yfirfæranlegt á stærra samfélag með gagnsæjum, auðrekjanlegum og „lesanlegum“ starfsferlum.
  • Öll rými, skápar og hirslur fyrir efnivið eru greinilega merkt.
  • Umferðargötur eru með miðlínum, örvum og hægri umferð sem og hraðatakmörkunum.
  • Hvert barn á sitt réttláta rými á samverumottu, merkt og afmarkað.
  • Á miðju samverumottunnar er sól þar sem börn æfa tjáningu og framkomu.
  • Dagskráin er eins alla daga og því fyrirsjáanleg sem gefur börnum aukið vald yfir aðstæðum sínum.
  • Allan daginn eru annars vegar hópatímar með tilteknum verkefnum undir stjórn kennara og hins vegar valtímar með leikjum barnanna sjálfra.
  • Valtímar byrja með formlegum valfundum, börn skiptast á að byrja að velja eftir gagnsæjum reglum og takmakaður fjöldi getur valið hvert svæði í senn.
  • Á valfundum þjálfast börn í að vita vilja sinn, koma honum á framfæri á jákvæðan hátt og loks að taka mótlæti þegar eitthvert valsvæði er upptekið.
  • Börn hafa áhrif á umhverfi sitt með þátttöku í að skipuleggja hópatímana með sínum kennara og koma með uppástungur um það sem þau vilja læra og gera.
  • Börn taka þátt í umræðum um valsvæði, leikefni og fjölda á svæði.
  • Lýðræðisfundir eru haldnir reglulega til að börn æfist í að hafa enn meiri áhrif á umhverfi sitt, t.d. að koma með tillögur að matseðli, ræða reglur og fleira.
  • Allt leikefni er svonefndur opinn efniviður sem er aldrei samkeppnisvaldandi heldur samvinnuhvetjandi.
  • Skólaföt jafna aðstöðumun barna.
  • Raunveruleikatengd verkefni eru í fyrirrúmi í hópatímum til að efla samábyrgð í samfélagi.
  • Sjálfstjórn er forsenda velgengni í félagslegum samskiptum, þess vegna æfum við jákvæðan aga og hegðun sem byggir undir sjálfstjórn.
  • Kennarar beita mikilli eftirfylgd til að öllum gangi vel og öðlist þannig kjark til að taka réttlátt pláss og ganga ekki á rétt annarra.
  • Hugrekki er æft í fjölmörgum aðstæðum eins og í sérstökum kjarkæfingum og á valfundum og lýðræðisfundum æfist hugrekki til að standa með sér, áhuga sínum og skoðunum.
  • Í kynjaskiptu og aldursskiptu starfi í hópatímum verða bæði kyn mun kjarkaðri í að æfa nýja færni, tjá sig fyrir framan hóp, semja og æfa skemmtiatriði o.s.frv.
  • Dagleg aldursblöndun í valtímum kennir eldri og yngri börnum samhjálp og samvinnu í samfélagi milli fólks með ólíka getu eldri og yngri barna í valtímum.

Skapandi umhverfi, skipulag og starfshættir

  • „Að skapa líf sitt“ er grundvöllur að skapandi starfi samkvæmt skilningi Hjallastefnunnar.
  • Jafnréttishugsjón okkar er hluti af því að styðja öll börn til þess öryggis og sjálfstjórnar að þau geti á hverjum degi treyst á sig sjálf; tilfinningar sínar, lausnir og hugmyndir.
  • Lýðræðisþjálfunin er annar hluti af sköpun þar sem börn æfast daglega í að vita vilja sinn á valfundum, taka ákvarðanir og koma hugmyndum sínum og tilfinningum á framfæri.
  • Umhverfið er rósamt; án hávaða og sjávaða (visual noise) til að skapa hugarnæði fyrir eigin hugsanir og ímyndun barnanna sjálfra.
  • Litir eru mildir og húsbúnaður er úr náttúrulegum efnum.
  • Tölvur og snjalltæki eru ekki notuð til að bæta ekki við skjátímann sem börn fá heima en mikil skjánotkun gerir það sama og sjávaði; dregur úr ímyndunarafli.
  • Kjörnuð áreiti eru á veggjum kjarnanna (heimastofum) og þá helst hlutir með fjölþættum tilgangi eins og upphengitöflur fyrir verk barnanna sjálfra eða fyrir sýningar á skipulögðu starfi.
  • Oftast eru veggir lítt skreyttir til að forðast fyrrnefndan sjávaða í daglegum vinnurýmum nema þá þegar börnin eru að vinna að stórum verkefnum eða sýningum.
  • Verk barnanna eru uppi tiltekinn tíma, þ.e. á með þau þjóna tilgangi sínum; sýna fjölskyldunni sinni eða meðan verki er lokið. Þá eru þau fjarlægð þar sem viðvani barna er svo hraður að áreiti missa tilgang sinn sem örvun á fáum dögum.
  • Skápar fyrir óbundna leikefnið og fyrir efnivið fyrir hópatíma með kennara eru lokaðir til að þeir skapi ekki sjávaða og hillur og borð eru kjörnuð (tiltekin og án óreiðu).
  • Kjörnuð áreiti út frá fegurðarsjónarmiðum eru í sameiginlegum rýmum eins og litrík fiskabúr, listaverk eins og fjölbreyttar ljósmyndir og fleira slíkt sem vekur hughrif.
  • Í frjálsum leikjum barna á valtíma er valið óbundið leikefni (open-ended material) sem nota má á hvern þann hátt sem börnin kjósa eins og leir, trékubbar, mismunandi pappír og föndurefni, teppi, púðar og dýnur og fleira.
  • Efniviður úr plasti er ekki notaður á valtímum barnanna nema í undantekningartilvikum.
  • Leikefnið stenst þær kröfur að börnin ráða við það sjálf og án þess að fullorðnir blandi sér í leikinn nema til stuðnings. Valdefling og sjálfstraust eykst sem er forsenda þess að þau geti nálgast lausnir í lífi sínu á skapandi hátt.
  • Við teljum æskilegt að velja leikefni sem er frábrugðið þeim leikföngum sem börn eiga og nota heima. Slíkt eykur á reynslu barnanna og leikskólinn verður viðbót við heimilið.
  • Heilaþroski barna er á gríðarlega mikilvægum mótunartíma og fjölbreytt reynsla heima og heiman kemur börnum best.
  • Áratugareynsla Hjallastefnunnar af óbundnu leikefni hefur sýnt okkur að leikir barnanna okkar eru síbreytilegir og þróast óendanlega í mikilli ánægju allra með mikilli fjölbreytni, nýjum hugmyndum og annarri sköpun.
  • Óbundna leikefnið endurskapar sig daglega út frá ímyndun og hugmyndaflugi barnanna hverju sinni.
  • Við notum líka alls kyns verðlausan efnivið sem fellur til og börn velja að hafa með í leikjum og föndri.
  • Óbundið leikefni er aldrei með aðeins eina, fyrirframgefna lausn eins og púsl eða raðspil þar sem börn þurfa að leita að „einu, réttu“ lausninni sem einhver hefur úthugsað fyrir þau.
  • Óbundið leikefni er heldur aldrei með innbyggð skilaboð um hvernig eigi að leika sér eins og dúkkur, bílar, eldavélar og gröfur.
  • Kynbundinn efniviður er aldrei fyrir hendi sem gefur öllum frelsi frá því hvernig drengir eða stúlkur eigi að leika sér.
  • Í leik með óbundið leikefni verður sjálfkrafa samvinna fremur en samkeppni þar sem ekki er um fáa og spennandi hluti að ræða sem kallar oft á átök.
  • Notkun á óbundnum efnivið styður við frumlega og lausnamiðaða hugsun því börnin verða að leggja sig öll fram til að skemmtilegur leikur eigi sér stað.
  • Óbundinn efniviður reynir meira á börn og krefst þolinmæði, seiglu og á þrautseigju (resilience) þar sem hlutirnir sjálfir búa ekki yfir afþreyingargildi í sjálfu sér heldur eru bara áhöld.
  • Óbundna leikefnið eykur á úthaldsgetu barna og styrkir þol gegn mótlæti því það reynir á að halda sig við efnið og gefast ekki upp þótt þau þurfi að hafa talsvert fyrir hlutunum.
  • Hlutverk skólans og kennara er að ýta undir frumkvöðlahugsun með því að vera stöðugt í frunkvöðlastarfi og leita nýrra og óvenjulegra lausna.
  • Sem dæmi er lýðræðið á kjörnum þar sem starfsmannahópur eins kjarna annast öll mál kjarnans með valdi og ábyrgð.
  • Við erum alltaf þátttakendur með hópnum okkar og sýnum kjarkað fordæmi í stað þess að „láta“ börn gera eitthvað.
  • Við æfum okkur í óvenjulegri hegðun til að brjóta hugarramma barna og fullorðinna um það sem er „viðeigandi“ hegðun.
  • Við leggjum áherslu á óvenjuleg verkefni og nýja lífsreynslu til að styrkja heilaþroska barna á mikilvægum mótunartíma.
  • Við fáum hugmyndir fyrir hópastarfið frá börnum og æfum jákvæðni gagnvart öllum hugmyndum, hversu fráleitar sem þær virðast vera.
  • Við bregðumst jákvætt við mistökum og finnum mótlæti til að byggja upp úthald og bjartsýni.
  • Sköpun nefnum við að „brjóta hugarramma“, að fara út fyrir rammann með börnum og æfa nýja færni.
  • Kjarkæfingar eru dæmi um starf sem brýtur hugarrammann um það sem má og ekki má til að ná fram meiri sköpun í viðhorfi.
  • Jákvæð gagnrýni er æfð og ýtt undir nýjar hugmyndir og nýjar lausnir.
  • Öll börn æfa sig að tjá sig um líðan sína og hugmyndir og hvernig þau upplifa sig í skólanum.
  • Framkoma og tjáning fyrir framan hóp er æfð reglubundið.
  • Leiðtogaþjálfun er daglegur hluti starfsins eins og að vera leiðtogi í eina viku í senn til skiptis þar sem þau fara fremst í hópnum og eru fyrirmynd hinna.
  • Starf úti í náttúrunni fer fram í öllum veðrum og við alls kyns aðstæður þar sem náttúran sjálf er síbreytileg, gefur alltaf nýjar ögranir og skapar ný hughrif.
  • Mikil áhersla er lögð á að segja sögur, bæði kennarar og börn sem spinna sjálf sínar eigin sögur.
  • Börnin gera sínar eigin bækur með teikningum og/eða textum með aðstoð kennara.
  • Börn gera sínar eigin litabækur þegar hópurinn fjölfaldar teikningar allra í hópnum þannig að þau fái hvert sína bók með teikningum allra.
  • Hóparnir gera einnig bækur með myndum af starfi barnanna sjálfra í leikskólanum.
  • Annað dæmi er áherslan á að semja og æfa eigin leikrit og sýna hinum á kjarnanum eða á söngfundi skólans.
  • Börn búa sjálf til raðspil og púsl og bingó undir stjórn kennarans.
  • Hefðbundnar barnabækur eru notaðar í miklu hófi og hóparnir sækja bækur á bókasöfn sem við notum mikið.
  • Bækurnar eru valdar af gætni út frá innihaldi og þess gætt að þær innihaldi ekki niðrandi viðhorf gagnvart kynferði, kynþáttum, þjóðlöndum, trúarbrögðum eða öðru.
  • Aðeins er lesið fyrir fámennan hóp í senn til að fá fram umræður, spurningar og hugmyndir – jafnvel leikið með endursköpun persóna og atburðarásar.
  • Bækur í eigu skólans eru t.d. ljósmyndabækur þar sem Hjallastefnan kýs heldur raunveruleikatengdar ljósmyndir sem vekja hughrif og skapandi hugsun heldur en teikningar sem túlka veruleikann fyrir þau.
  • Barnatónlist er ekki spiluð í skólanum þar sem börn heyra hana í heimilismiðlum.
  • Við veljum heimstónlist, þjóðlagatónlist og klassíska tónlist sem vekur hughrif og hvetur til skapandi hugsunar.
  • Tónlist er aldrei bakgrunnshávaði heldur er aðeins notuð sem hluti af því starfi sem er í gangi.