Vinnustaðurinn

Leikskólar og grunnskólar Hjallastefnunnar bjóða upp á fjölbreytt, bráðskemmtileg og gefandi störf. Börn og foreldrar virða starfsfólkið mikils og vinnuumhverfið allt er frábært. Umræða samfélagsins um lág laun er stórlega ýkt að mati okkar Hjallastefnufólks sem leggjum metnað okkar í sveigjanlegt starfsumhverfi, jákvæðan vinnuanda og kærleiksrík samskipti.

Samhliða snýst allt okkar starf um hamingju og árangur þeirra barna sem okkur er treyst fyrir og um einlægni og samstöðu með öllum barnafjölskyldum okkar.

Því er velgengni hvers barns í fyrsta sæti og starfsfólk sníður allt starf til að svo megi verða.

„Ég kem í vinnuna á hverjum degi full tilhlökkunar að hitta börnin, foreldrana og samstarfsfólkið. Hér sköpum við saman innihaldsríkan og góðan dag fyrir börnin svo að þau geti notið bernskunnar.“

Anna Ólöf Sigurðardóttir, kennari á Laufásborg

Hér getur þú sótt um starf hjá Hjallastefnunni.

„Hvað er annað hægt en að fagna því að fá tækifæri til að æfa bjartsýni og gleði ásamt öllum öðrum á vinnustað sínum og það í svartasta skammdeginu þegar þörfin er líklega mest?“

Áki Árnason, kennari á Laufásborg

Mikil starfsánægja

Starfsánægja er með því hæsta sem gerist á Íslandi og það sem einkennir okkar skóla er:

• Í grunnskólum okkar eru kennarar ekki með bundna viðveru eftir kennslu nema einn dag í viku.
• Allir eru þannig með launaðan tíma fyrir undirbúning en fullt frelsi hvar og hvenær hann er unninn.
• Þetta er fullt starf og allir eru í gleði og hamingju með börnum allan viðverutímann.

• Laun eru betri í Hjallastefnuskólum en gengur og gerist.
• Við styðjum fólk til ókeypis leikskólaliðanáms að öllu leyti.
• Með samhjálp starfsfólks ríkir mikill sveigjanleiki.
• Starfsfólk í hverri starfseiningu skipuleggur vaktir og mætingar sjálft.
• Starfsmannaföt eru lögð til sem sparar mikið í eigin fatakostnað.
• Við komum til móts við séróskir starfsmanna í mataræði og vitaskuld fá þeir frítt fæði allan daginn.

• Hjallastefnan byggir á íslensku hugviti og er margverðlaunuð, bæði á Íslandi og erlendis.
• Rannsóknir hafa sýnt að okkar börn mælast ávallt jafnvíg og fremri á sumum sviðum en samanburðarhópar.
• Minni hávaði er í Hjallastefnuleikskólum heldur en í öðrum leikskólum.
Námsárangur barna eftir Hjallastefnugrunnskóla er betri en í samanburðarhópum.
• Biðlistar í Hjallastefnuleikskóla eru mjög langir.
• Ánægja starfsfólks og foreldra í leikskólum Hjallastefnunnar er með því allra besta sem gerist.
• Flestir af okkar leikskólum verða lokaðir á milli jóla og nýárs.
• Hjá okkur er faghlutfall með því hæsta sem gerist.
• Starfsfólkið okkar er mjög fjölbreytt og með fjölbreytta menntun og reynslu.

„Virðing sem borin er fyrir börnum og þeim kennt að bera fyrir sjálfum sér og öðrum það er, fyrir mér, kjarninn í Hjallastefnunni.“

Dóra Margrét Bjarnadóttir, skólastjóri