Hjallastefnan hlaut byltingaverðlaunin 2019

Það er með miklu stolti sem Hjallastefnan tók á móti verðlaunum fyrir byltingarkenndar stjórnunaraðferðir í gær. Allur salurinn reis úr sætum með lófataki er Margrét Pála tók við viðurkenningunni úr hendi Ástu S. Fjeldsted, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands.

Viðskiptaráð segir: „Hjallastefnan er 30 ára fyrirtæki, stofnað til að halda utan um sjálfstæðan rekstur á leik- og grunnskólastigi. Markmið Hjallastefnunnar hefur verið að skapa skólastefnu sinni sem bestar aðstæður til þróunar. Hjallastefnunni er ætlað að valdefla konur og kvennastörf sem og að auka fjölbreytni í skólastarfi. Hjallastefnan hefur jafnframt barist fyrir því að allir skólar njóti jafnræðis varðandi opinber fjárframlög og að allir foreldrar njóti valfrelsis þegar kemur að uppeldi og menntun barna, óháð fjárhagsstöðu sinni. Hjallastefnuskólarnir eru nú átján talsins, leik- og grunnskólar víða um land samkvæmt þjónustusamningum við sveitarfélögin. Hjá Hjallastefnunni starfa 450 manns og eru 1900 nemendur.

Dómnefnd Manino og Viðskiptaráðs Íslands, sem standa að ráðstefnunni, var á einu máli um ómetanlegt framlag Hjallastefnunnar sem sjálfstætt starfandi skóla til jákvæðrar vinnumenningar á Íslandi og valdeflingar starfsfólks.

Stefna fyrirtækisins hefur frá upphafi verið skýr og einföld: Reglur, boð og bönn eru ekki leiðir til þess að fá fólk til að blómstra. Í stað stigveldis og pýramída starfa þar hópar sem sjálfstæðar einingar og hafa svigrúm til að útfæra sína vinnu á eigin hátt. Allir vinna þó eftir ákveðnum gildum sem unnið er með þvert á starfsfólk, viðskiptavini og verkefni. Yfirbyggingin er mjög lítil miðað við fyrirtæki af þessari stærð en þar starfa 450 manns og engar sérstakar höfuðstöðvar. Miðstýring og skriffinnska eru ekki notuð sem stjórntæki.

Virðing er eitt af lykilorðum þessa fyrirtækis en starfsfólks þess veit að til að geta komið fram við „viðskiptavinina“ með virðingu krefst þess að þú berir virðingu fyrir sjálfum þér og þeim sem þú starfar með.

Jafnrétti er grunnstefið í allri nálgun í starfseminni sem og lýðræði til að tryggja sem mestan mátt sköpunar. Valdefling kvenna, kurteisi og falleg framkoma einkenna þennan vinnustað.

Manino og Viðskiptaráð Íslands óska Hjallastefnunni innilega til hamingju með viðurkenninguna.

Ráðstefnan Bylting í stjórnun! er samstarf Manino og Viðskiptaráðs Íslands og er þetta í annað sinn sem hún er haldin.“