Hjallastefnan og Listasafn Íslands

Í KrakkaRÚV var spjallað við börnin  á miðstigi í Barnaskólum Hjallastefnunnar en frá því í haust hafa þau heimsótt Listasafn Íslands og tekið þátt í verkefni sem kallast Sjónarafl. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu og skilning ungmenna á myndlist og sjónrænum menningararfi þjóðarinnar 
Sjón er sögu ríkari og gaman að heyra upplifun þeirra og sýn á verkefnið. Barnaskólarnir okkar hafa verið mikilvægur þáttur í að þróa verkefnið og eiga kennarar og börnin stóran þátt í mótun þess en nú í haust verður það opnað og í boði til allra grunnskóla á landinu.
Hjallastefnan og Listasafn Íslands í samstarfi að valdefla börn til að skilja og takast á við myndrænar upplýsingar
Listasafn Íslands hóf á haustmánuðum 2021 nýtt þróunarverkefni sem ber heitið Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi en verkefnið miðar að því að auka þekkingu og skilning ungmenna á myndlist og sjónrænum menningararfi þjóðarinnar. Verkefnið hefur verið í þróun síðustu misserin innan safnsins en framkvæmd þess hófst með samstarfi við Barnaskóla Hjallastefnunnar.
Undanfarnar vikur hafa nemendur á miðstigi heimsótt sýningar safnsins og notið þjálfunar í myndlæsi. Í hverri heimsókn eru tekin fyrir valin verk úr safneign Listasafns Íslands og skapaðar umræður um þau. Unnið er út frá hugmyndafræði alþjóðlegra aðferða við kennslu í myndlæsi þar sem nemendum er skapað gott rúm til að tjá sig og lýsa eða túlka það sem þau sjá.
Verkefnið felur í sér þjálfun og valdeflingu barna til að skilja og takast á við myndrænar upplýsingar á tímum nýrrar tækni og nýrra miðla. Er það von Listasafns Íslands að verkefnið muni stuðla að auknum sýnileika myndlistar og að listaverk öðlist ríkari þátt við menntun komandi kynslóða. Vonir standa til þess að verkefnið muni festast í sessi sem þáttur af safnfræðslu Listasafns Íslands sem kennarar og nemendur á grunnskólastigi muni njóta góðs af um allt land.
Sjá myndband
https://www.ruv.is/krakkaruv/spila/hullumhae/30713/9jc3rm