Hulda Björk er nýr skólastjóri á Velli.

Hjallastefnan auglýsti starf skólastjóra á Velli laust til umsóknar í mars síðast liðnum og vakti starfið áhuga margra. Hulda Björk Stefánsdóttir skólastjóri á Sólborg í Sandgerði var valin úr öflugum hópi umsækjenda og mun hún hefja störf á Velli í maí.

Hulda sem hefur starfað hjá Hjallastefnunni frá árinu 2006 og hefur verið skólastjóri á Sólborg frá árinu 2012.

„Ég mun kveðja Sólborg full af þakklæti og stolti. Leikskólastarfið á Sólborg hefur verið í sífelldri þróun á síðustu árum og sem dæmi má nefna hafa 14 starfsmenn skólans lokið leikskólaliðanámi á þeim tíma sem ég hef leitt starf skólans. Ég held áfram að fylgjast vel, með skólanum, börnum, foreldrum og því góða fólki sem þar starfar og ég veit í hjarta mínu að framtíð Sólborgar er björt. Að sama skapi tek ég full auðmýktar við spennandi verkefnum á Velli og hlakka mikið til samstarfsins við alla sem þar eru.“