Margrét Pála á Suðurpólinn

Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, frumkvöðull og nú suðurskautsfari segir frá einstakri reynslu og ferðalagi sínu á Suðurpólinn.

Ævintýraferðin hófst í Santiago í Chile þar sem hún fór um borð í ísbrjótinn Commendan Charcot sem sigldi af stað í mánaðarför á Suðurpólinn. Þann 9. janúar var siglt fyrir horn eða Drake Passage og framundan hefur okkar kona lent í miklum ævintýrum.

Margét Pála heldur úti ferðasíðu sem er opin fyrir alla áhugasama og þar deilir hún skemmtilegum sögum. Gaman er að fylgjast með henni í þessari einstöku ferð.
Ferðasíða Margrétar Pálu á Facebook

Margrét Pála deilir reglulega ferðasögum úr ferðinni sem ekki er hægt að segja að séu innsýn inn heim sem ekki margir hafa upplifað. Einnig lendir okkar kona í mörgum bráðskemmtilegum atvikum um borð í bátnum og hvetjum við ykkur að fylgjast með henni.

“Ótrúlegur sólarhringur að baki – og við vöðum í sögu pólferðanna hvert sem litið er. Ekki amalegt, kæru vinkonur og vinir. Amundsen í gær og svo komu fjöllin frægu, Terror og Erebus í gærkvöldi (meina auðvitað að við sigldum en þau högguðust ekki að mér vitandi hahaha). Rekakkeri og við vörðum nóttinni í ógnandi návist Erebus – í altærum og ísköldum Suðurpólsstrekkingi. Sem sagt, við Cape Royd í McMurdo sundi í Rosshafi (svo því sé haldið til skila) stendur enn hús Shackelton og hans manna frá í Nimrod leiðangrinum 1907-1909. Gríðarleg spenna um borð, skyldum við komast í land og að kofanum? Loks er tilkynnt að ísinn sé að þvælast fyrir en með því að fara talsvert langa og bratta hliðarleið sé hægt að ná settu marki í bítið næsta dag. Mikið fagnað – en systir Úrtala hvíslaði alúðlega og sannfærandi að mér. Blessaður guðsvolaði auminginn, auðvitað getur þú ekki farið að leggja þetta á þig, bústin 66 ára kona með afleitt bak og asma – viltu ekki bara hvíla þig um borð? Og gegnin og prúð dapraðist ég strax verulega, auðvitað gæti ég þetta ekki. Sorglegt en svona væri nú lífið – og ég var ennþá að gæla við heimsharminn í morgun yfir tebollanum í útsýnissalnum. En – örstutt spjall og samferðafólk hristi bullið burtu á andartaki. Ég reif mig upp, í gallann og bátinn og í land. Vissulega var ég á fjórða tíma með mína landgöngu og skoðun (flestum öðrum dugðu tveir tímar) og ég afrekaði margt; hitta sel, týna símanum, sækja hann til ábyrga starfsmannsins á eftir mér, fljúga á hausinn og magalenda (massi x hraði ákvarðar alvarleika árekstursins), upp brekku, púst, hitta mörgæs, niður brekku, vaða snjóinn, hvíla, upp brekku, halda jafnvægi á hliðarstíg, hvíla, púst, hitta sel – og áfram síendurekið. Ég komst alla leið og það var hvers skrefs og hverrar mínútu virði. Hvílík sigurgleði – og hvílík reynsla að fara inn í aðstæður þessara hetja fyrir 115 árum. Hverju skiptir þótt ég hafi verið síðasti farþeginn frá landi með hópi starfsmanna sem af elskulegheitum og ötulleika hafði fylgt mér og bjargaði mér út í bátinn í öldugangi og svelluðum ísjaka á hreyfingu …”