Ullarpeysur fyrir nemendur.

Hjallastefnan kynnir með stolti ullarpeysur fyrir nemendur.

Síðastliðin tvö ár hefur Hjallastefnan unnið að því að stíga stórt umhverfisskref í skólafötum og bjóða upp á ullarpeysur í stað flísefnis. Haustið 2018 fengu starfsmenn fyrstu peysurnar en nú er komið að því að bjóða upp á ullarpeysur sem valkost fyrir nemendur. Ullarpeysurnar eru hannaðar af Guðfinnu Mjöll Magnúsdóttur og framleiddar í prjónaverksmiðju Glófa í Reykjavík.

Í peysunum eru eiginleikar íslensku ullarinnar dregnir fram. Ullin er ein sú hlýjasta í heiminum þar sem íslenska sauðkindin hefur þróað ullina út frá veðurfari á Íslandi frá landnámi. Varminn í peysunum er því einstakur og voðin lipur og létt. Til þess að gera peysurnar aðgengilegri fyrir sem flesta þá er mjúk ensk ull notuð í kraga og ermar peysunnar.

Rannsókn frá 2018 hefur leitt í ljós að í hvert skipti sem flíspeysa er þvegin losnar um það bil 1,7 gr. af mengandi örögnum. Eins er orðið ljóst að örplast finnst í öllum höfum heimsins, hefur komist inn í lífkeðjuna og þar með talið í drykkjarvatn okkar. Hjallastefnan er því að bregðast við þessari umhverfisvá og hefur tekið ákvörðun um að stöðva alla framleiðslu á skólafatnaði úr flísefni, því flís er ekki lengur í boði.

Við viljum vekja athygli foreldra á að ullarpeysur geta aldrei haft sama slitþol og flíspeysur sem gerðar eru úr plasti. Ullarpeysur á að þvo eins sjaldan og mögulegt er og fylgja þá þvottaleiðbeiningum á miða í peysunum. Best er hins vegar að viðra ull úti og ef ekki hafa komið blettir þá er það alveg nógu góð hreinsun. Öll ull hnökrar, það er ekki merki um lítil gæði heldur er það lífið í efninu sem skapar hnökra. Með því að hnökrahreinsa einu sinni til tvisvar þá eiga hnökrarnir að minnka verulega. Eins er óhjákvæmilegt að lykjur dragist til í prjónuðum flíkum og hefur því verið gert einfalt myndband til að útskýra hvernig hægt er að laga það.

Við viljum benda foreldrum sem eiga flísföt að þvo þau eins sjaldan og hægt er í þvottavél, viðra fötin frekar en að þvo og nota fatabursta til að hreinsa yfirborð. Fatabursta er til dæmis hægt að fá í Vistveru í Grímsbæ.

Hjallastefnan vinnur einnig að því að innleiða hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins í tengslum við skólafötin með það að leiðarljósi að reyna að halda fötunum eins lengi í notkun og hægt er. Þegar komið er að endastöð getum við tekið við þeim aftur eða bent á vænlegustu kostina til endurvinnslu.

Hjallastefnan ætlar að taka þátt í að bregðast við okkar stærstu umhverfisáskorunum á skapandi hátt, við vonum að þið séuð til í það með okkur.

Á vefverslun Hjallastefnunnar er hægt að kaupa peysuna.