Hvers vegna er kynjaskipt skólastarf í Hjallastefnunni?

Jafnréttisstarfið í Hjallastefnuskólunum felst annars vegar í kynjaskiptu starfi stóran hluta dagsins og hins vegar í daglegri samveru kynjanna þar sem virðing og raunveruleg samvinna stúlkna og drengja er æfð á jákvæðan hátt. Að baki aðferðum okkar liggja hugsjónir sem við höfum þróað yfir í hagnýtar lausnir og starf með börnum um árabil og hafa skilað okkur góðum árangri. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á stefnunni, hafa sýnt hið sama og erlendar rannsóknir til fjölda ára, þ.e. að kynjaskipt skólastarf getur verið mjög öflug aðferð en vissulega ekki nema með skýrum markmiðum og vel ígrunduðum leiðum rétt eins og í öllu skólastarfi.

Kynjaskiptingunni er ætlað að styrkja bæði kyn á þeirra eigin forsendum eða það sem við nefnum uppbótarvinnu Hjallastefnunnar. Þar er kenning okkar í sinni einföldustu mynd að stúlkur þurfi meiri hvatningu og styrkingu í einstaklingseiginleikum heldur en drengir og á sama hátt þurfi drengir meiri þjálfun og hvatningu í félagslegum eiginleikum. Þessi kenning byggir m.a. á kynjakvarða Hjallastefnunnar sem má nálgast hér ásamt kenningu okkar um kynjablöndun sem „öfuga speglun“ þar sem kynin spegla sig í hinu kyninu til að skilgreina hvaða hegðun, áhugi og leikir séu „stelpulegir“ eða „strákalegir.“

Eins er kynjaskiptingin okkar leið til að gefa báðum kynjum réttlátan skammt af gæðum skólans sem ávallt mælist drengjum í hag, þ.e. mikill meirihluti alls rýmis bæði úti og inni, athygli og hvatning kennara og fleira fer til drengja. Þessi bróðurpartur er þó oft neikvæður því drengir eru ávítaðir fyrir slaka hegðun og heyra að þeir nái ekki sama árangri í skólanum eins og stúlkurnar. Þær eru hins vegar á undan í ýmsum þáttum skólaþroskans s.s. einbeitingu og fínhreyfingum eins og samhæfingu augna og handa og því er námið oft of létt fyrir stúlkurnar. Upplýsingar um hið samfélagslega misréttis sem kynjaskiptingin byggir á, má finna hér.

Mikilvægur hluti jafnréttisuppeldis okkar er líka að skólafötin eru eins fyrir bæði kyn, allt leikefni er eins og aldrei með einhverri kynjaðri skírskotun og sömu verkefni og sömu tilboð eru fyrir bæði kyn þótt margt útfærist ólíkt út frá þörfum hópanna.