Eruð þið ekki með leikföng og barnabækur í Hjallastefnuskólum?

Markmið okkar er að bjóða upp á annars konar leikefni og barnaefni en börn eiga á heimilum sínum þannig að leikskólinn verði viðbót við þá reynslu sem börn öðlast heima. Því kemur hið fábreytta og óbundna leikefni Hjallastefnuskólanna mörgum spánskt fyrir sjónir til að byrja með en þegar fylgst er með leikjum barnanna okkar litla stund, breytast viðhorfin fljótt. Best má trúlega lýsa því með orðum barnanna okkar. Einn drengur var til dæmis spurður í fjölskylduboði hvort það væri ekki leiðnlegt að leikskólinn hans væri ekki með dót. Hann svarað strax að það væri víst fullt af dóti og að hann væri alltaf að leika sér. Stúlka nokkur sagði aðspurt um vöntun á púsluspilum: „Við búum þau bara til ef við viljum.“ Lesa meira

Leikefnið okkar eru trékubbar af ýmsum gerðum, heimagerður leir, pappír og litir og málning og föndurefni af ýmsum toga, vatn og sandur, dýnur og púðar og teppi og borð auk skapandi efnis í hópastarfi. Allt byggir á hugmyndum okkar um ímyndun og sköpun barnanna sjálfra í leiknum og valdefla þau til að leita að sínum eigin lausnum. Eins er náttúrulegur efniviður okkur mikilvægur sem og leikefni sem hvetur til samvinnu en ekki samkeppni og eftirfarandi yfirlit sýnir betur hvaða kröfur við gerum til þess efnis sem kemur inn í skólana okkar hverju sinni. Síðan búa börnin sjálf til raðspil og púsl og litabækur með eigin teikningum og hvað eina sem okkur dettur í hug.

Barnabækur sækja hóparnir sér á bókasöfn sem við notum mikið. Við veljum þó bækurnar af gætni út frá innihaldi og lesum aldrei fyrir stóran hóp heldur lesum með fámennum hópi. Síðan leggjum við mesta áherslu á sögur, bæði sem kennarar segja og svo sögur sem börnin spinna sjálf og eigin bókagerð. Ljósmyndabækur eru líka vinsælar, bæði aðfengnar og einnig bækur með myndum af starfi barnanna sjálfra í leikskólanum.

Setja inn töflu úr Handbók leikskóla sem útskýrir hvers konar efnivið við kjósum

Við vitum að mikið er til af frábærum og þroskandi leikföngum sem henta mjög vel fyrir barnið heima. Við hvetjum foreldra til að búa vel að leikaðstæðum barnsins, leika stundum með þeim og styðja þau einnig til að geta dundað sjálf með dótið sitt. Sannast sagna er víða allt of mikið af dóti sem getur unnið gegn því að börn nái að þróa góðan leik og því hvetjum við líka foreldra til að snarminnka allt dótamagnið sem flest barnaherbergi búa yfir til að hjálpa börnum til að slaka á, ná meiri einbeitingu og þar með lengri og betri leiktíma í næði.

Hið sama gildir um barnabækurnar sem henta frábærlega fyrir samlestur og samskoðun barns og foreldris, t.d .fyrir svefninn. Þá getur barn og foreldri rætt og spjallað um söguna og myndirnar og barnið nýtur allrar athyglinnar og tímans. Slíkur lestur er óendanlega mikilvægur fyrir bæði málþroska barnsins og tilfinningaþroskann í öryggi og skjóli foreldris og heimilis og hóplestur leikskólans kemur aldrei í staðinn fyrir þetta hlutverk foreldranna.